Fréttasafn



20. mar. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun

Forritunarkeppni framhaldsskólanna haldin á netinu

Hátt í 100 keppendur í 36 liðum frá 11 framhaldsskólum eru skráðir til leiks í forritunarkeppni framhaldsskólanna sem verður haldin í tuttugasta skipti á morgun laugardaginn 21. mars. Í ljósi COVID-19 faraldursins hefur verið ákveðið að færa keppnina alfarið á netið þar sem keppendur munu keppa að lausnum á fjölbreyttum forritunarþrautum, sem eru allt frá því að smíða forrit sem óskar keppninni til hamingju með 20 ára afmælið, yfir í að smíða forrit til að aðstoða við raðgreiningu á kórónuveirunni SARS-CoV-2.

Í tilkynningu frá HR kemur fram að í staðinn fyrir að keppendur mæti í Háskólann í Reykjavík, eins og þeir hafa gert í nítján ár, munu keppendur nú taka þátt gegnum netið. Eins og venjulega nota keppendur vefkerfið Kattis til að fá aðgang að verkefnum keppninnar og til að skila inn lausnum. Lokaathöfn verður streymt á netinu og er slóðin aðgengileg á vef HR. Keppninni er skipt í þrjár deildir eftir erfiðleikastigi auk opinnbera deildar. Verðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin í hverri deild en auk þess býðst sigurvegurum Alfa-deildarinn niðurfelling skólagjalda í tölvunarfræðideild við Háskólann í Reykjavík í eina önn.

Opna-deildin þar sem allir geta spreytt sig á verkefnunum að heiman. Hægt er að fylgjast með opnu deildinni hér

Delta-deildin er ætluð byrjendum eða þeim sem eru rétt farnir að kynnast forritun. Æskileg kunnátta er einföld strengjavinnsla, inntak, úttak, if-setningar og einfaldar lykkjur. Hægt er að fylgjast með Delta-deildinni hér.

Beta-deildin er millistig sem er ætlað til að brúa bilið á milli Delta og Alpha. Hér má búast við dæmum sem þarfnast flóknari útfærslu en í Delta, sem m.a. fela í sér faldaðar lykkjur (e. nested loops), flóknari strengjavinnslu og einföld reiknirit. Hægt er að fylgjast með Beta-deildinni hér.

Alfa-deildin er ætluð þeim sem hafa mikinn áhuga og þekkingu á forritun. Þeim þátttakendum sem best standa sig í þessari deild verður boðið að taka þátt í æfingabúðum með því markmiði að velja í ólympíulið Íslands í forritun. Hægt er að fylgjast með Alfa-deildinni hér.