Fréttasafn



8. apr. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Forseti Íslands setur Íslenska daga

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem er verndari átaksins Íslenskt – gjörið svo vel setti í gær með formlegum hætti Íslenska daga í verslun Bónus í Garðatorgi. Innlendir matvælaframleiðendur og verslanir hafa tekið höndum saman og ætla að vekja athygli á úrvali íslenskra vara í fjölmörgum verslunum víða um land fram til 20. apríl næstkomandi. Af þessu tilefni var sérstök bók með myndum af úrvali íslenskra vara afhent forseta Íslands til varðveislu á Bessastöðum.

Að baki átakinu Íslenskt – gjörið svo vel standa Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands. Átakið hófst í nóvember síðastliðnum þegar landsmönnum gafst kostur á að fara inn á vefsvæðið gjoridsvovel.is til að setja saman lista yfir þær íslensku vörur sem ætti að bjóða erlendum gestum. Tilgangur átaksins er að efla vitund Íslendinga á íslenskum vörum en átök sem þessi hafa verið reglulega undanfarin ár. Fyrirtæki sem framleiða eða selja íslenskar vörur geta tekið þátt í átakinu. Miðað er við vörur sem uppfylla þau skilyrði sem fram koma í fánalögum. Þau fyrirtæki og þeir framleiðendur sem taka þátt í átakinu fá aðgang að myndmerki þess og geta nýtt það á umbúðir, heimasíður, samfélagsmiðla eða annað kynningarefni sitt.

  • Eftirtaldir framleiðendur eru þátttakendur: SS, Ali, Nói Síríus, Matfugl, Ferskar kjötvörur, Landssamband bakarameistara, Kjörís, Myllan, MS, Sölufélag garðyrkjubænda, Iðnmark, Ölgerðin, Kjarnafæði, Móðir náttúra, Pottagaldrar, Vilko, Kaffitár og Nýja kaffibrennslan.
  • Eftirtaldar verslanir eru þátttakendur: Bónus, Krónan, Melabúðin, Nettó, Hagkaup, Nóatún og Kjörbúðin.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Það er mikilvægt að efla íslenskan iðnað og búa honum gott umhverfi, einkum þegar horft er til þess að neytendahópurinn hefur stækkað töluvert miðað við fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Íslenskir dagar eru liður í átakinu Íslenskt – gjörið svo vel og ánægjulegt að sjá hversu margir framleiðendur og verslanir ætla að vera með. Með þessum dögum viljum við vekja athygli landsmanna á því mikla úrvali sem innlendir matvælaframleiðendur bjóða upp á.“

Á Facebook er hægt að skoða fleiri myndir.

Islenskir-dagar_1Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, afhenti forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, bók sem gerð var af þessu tilefni.

Islenskir-dagar_2Frá setningu Íslenskra daga, talið frá vinstri, Karl Eiríksson, Valentína Björnsdóttir, eigendur Móðir Náttúra, Margrét Kristín Sigurðardóttir frá SI, Hörður Vilberg frá SA, Árni Sigurjónsson, varaformaður SI, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Elín Edda Alexandersdóttir, verslunarstjóri Bónus í Garðatorgi.

RÚV, 7. apríl 2019.

Ruv-07-04-2019

mbl.is, 7. apríl 2019.

Mbl.is-07-04-2019

Fréttablaðið, 8. apríl 2019.

Frettabladid-08-04-2019

Morgunblaðið, 8. apríl 2019.

Morgunbladid-07-04-2019

Skessuhorn, 8. apríl 2019.