Forseti Íslands viðstaddur frumsýningu á nýju myndbandi
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var viðstaddur frumsýningu á nýju myndbandi þar sem Samtök iðnaðarins hvetja til þess að hugvitið verði virkjað í meira mæli.
Samtök iðnaðarins hófu ár nýsköpunar í janúar síðastliðnum og hafa hvatt til þess að nýsköpun verði sett í forgang við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Í myndbandinu sem Sagafilm gerði koma fram Salka Ýr Ómarsdóttir, 12 ára grunnskólanemandi, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Ágústa Guðmundsdóttir hjá Zymetech, Kolbrún Hrafnkelsdóttir hjá Florealis, Sesselja Ómarsdóttir hjá Alvotech og Vignir Örn Guðmundsson hjá CCP. Lagið í myndbandinu nefnist Further og er eftir íslensku hljómsveitina Warmland.
Með útgáfu þessa myndbands vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar fyrir framfarir í íslensku atvinnulífi. Með því að styðja við umgjörð og hvata til nýsköpunar í nýjum og rótgrónum fyrirtækjum telja samtökin að samkeppnishæfni Íslands verði efld til framtíðar.
Í myndbandinu er greint frá því að spár geri ráð fyrir að árið 2050 verði 250 þúsund starfandi á Íslandi sem þýðir að skapa þarf 60 þúsund ný störf á næstu 30 árum. Þar kemur fram að núna sé besti tíminn til að hugsa hlutina upp á nýtt og við séum byrjuð þar sem stigin hafa verið mikilvæg skref í rétta átt til að tryggja bætta umgjörð nýsköpunar á Íslandi með auknum hvötum til fjárfestinga, meðal annars í rannsóknum og þróun. Með því að fjárfesta í nýsköpun er hægt að efla hugverkaiðnaðinn sem er fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins á sama tíma og hlúð er að því sem fyrir er. Bent er á að það sé hægt að skapa öll þessi nýju störf þar sem við höfum gert þetta áður en á síðustu 30 árum hafa 67 þúsund ný störf orðið til sem hafa tryggt góð lífskjör á Íslandi.
Á myndinni hér fyrir ofan sem tekin var í Húsi atvinnulífsins eru, talið frá vinstri, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, og Árni Sigurjónsson, formaður SI. Myndina tók Birgir Ísleifur.
Hér er hægt að nálgast viðburðinn sem var í beinu streymi.
- Ávarp formanns SI hefst á mínútu 0:40
- Ávarp framkvæmdastjóra SI hefst á mínútu 10:50
- Ávarp forseta Íslands hefst á mínútu 17:50
- Sigríðir Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, var fundarstjóri.
Á myndinni sem tekin var í Húsi atvinnulífsins eru, talið frá vinstri, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, og Árni Sigurjónsson, formaður SI. Myndina tók Birgir Ísleifur.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Árni Sigurjónsson, formaður SI.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.
Hér er hægt að nálgast myndbandið:
mbl.is, 17. desember 2020.
Vísir, 17. desember 2020.
Nútíminn, 17. desember 2020.