Fræðsla um fjórðu iðnbyltinguna
IÐAN fræðslusetur og Samtök iðnaðarins standa fyrir fjórum opnum fræðslufundum í vetur um framtíðarhorfur, stefnur og hugtök sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Fundirnir eru ætlaðir öllu starfsfólki sem áhuga hafa á málefninu. Fyrsti fundurinn er næstkomandi fimmtudag 28. september kl. 8.30-10.00 í húsnæði IÐUNNAR að Vatnagörðum 20. Boðið verður upp á léttan morgunverð. Skráning á fundinn er á vef IÐUNNAR. Fundarstjóri er Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs.
Dagskrá fundarins á fimmtudaginn:
Hvað er fjórða iðnbyltingin? - Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við HR. Meiriháttar tæknibreytingar eru hafnar, störf munu breytast og þjóðfélagið með. Í því felast margvísleg tækifæri. Ólafur Andri fjallar um hvað átt er við þegar talað er um fjórðu iðnbyltinguna.
Sýndarveruleiki í starfsemi Marel - Guðbjörg H. Guðmundsdóttir, yfirmaður vöruþróunar hjá Marel. Guðbjörg fjallar um hvernig Marel notar sýndarveruleika í vöruþróun en fyrirtækið hefur verið leiðandi í vöruþróun og nýsköpun hér á landi.
Stafræn framtíð Icelandair - Guðmundur Guðnason, yfirmaður stafrænnar viðskiptaþróunar hjá Icelandair. Guðmundur fjallar um stafræna þróun hjá Icelandair, m.a. innleiðingu á „digital labs“.
Aðrir fundir í fundaröðinni eru:
- 12. október - Eru róbótarnir að taka yfir? Kristinn Andersson, prófessor í rafmagnsverkfræði í HÍ
- 16. nóvember - Er gervigreindin greind? Yngvi Björnsson, prófessor í tölvunarfræði við HR
- 5. desember - Hvaða gagn er í gögnum? Ragnheiður H. Magnúsdóttir, Marel