Fréttasafn15. apr. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Framboðsvandi á húsnæðismarkaði

Vandinn á húsnæðismarkaðnum er vissulega pólitísk ákvörðun sem tekin var og fylgt fram af mikilli hörku þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð. Húsnæðisvandinn er dæmi um afleiðingar rangrar forgangsröðunar og þess að leyfa stórskaðlegri blöndu af draumsýn, kreddum og fordómum að stjórna uppbyggingu í höfuðborginni. Og þrátt fyrir góðan vilja hjá ríkisvaldinu og aðilum vinnumarkaðarins verður vandinn ekki leystur á meðan stærsta sveitarfélagið situr við sinn keip í þessum efnum. Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í dag þar sem vísað er til talningar SI á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI. Í leiðaranum kemur fram að talningin sýni að rétt tæpar fimm þúsund íbúðir séu nú í byggingu á þessu svæði, þar af rúmur helmingur í höfuðborginni sjálfri. Athygli veki hve hátt hlutfall þessara íbúða sé á dýrari svæðum en lágt hlutfall á svæðum þar sem ætla megi að boðið verði upp á íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá tekju- eða eignaminni. Í Reykjavík sé rúmlega þriðja hver íbúð, hátt í eitt þúsund, í byggingu í póstnúmerinu 101 og megnið af því sem eftir standi sé einnig á svokölluðum þéttingarsvæðum, en innan við tíunda hver íbúð sem verið sé að byggja í borginni sé í Grafarholti eða Úlfarsárdal, þar sem verið sé að brjóta nýtt land undir byggingar. 

Vísað er meðal annars til orða framkvæmdastjóra SI sem bendi á að áherslan í umræðunni um að greiða ungu fólki og tekjulágum leið inn á húsnæðismarkaðinn snúist aðallega um að ýta undir eftirspurnina með því að styðja við þessa hópa, svo sem með eiginfjárlánum frá ríkinu. Áherslan ætti að hans mati að vera á framboðshliðina: „Þetta er röng forgangsröðun. Þótt fólki sé hjálpað að kaupa íbúðir er grunnvandinn sá að það vantar íbúðir. Hvaða íbúðir á fólk að kaupa fyrir alla þessa styrki? Þeir breyta því ekki að það þarf að byggja miklu meira af hagkvæmum íbúðum.“

Morgunblaðið, 15. apríl 2019.

Morgunbladid-15-04-2019