Fréttasafn15. sep. 2021 Almennar fréttir

Framfarasjóður SI auglýsir eftir umsóknum

Framfarasjóður SI auglýsir eftir umsóknum og er umsóknarfrestur til og með 15. október. Umsóknir sendist á netfangið mottaka@si.is. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á mottaka@si.is.

Með umsókn þarf að fylgja greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og með hvaða hætti verkefnið samræmist markmiðum og leiðarljósum sjóðsins. Þá þarf að fylgja verkáætlun, fjárhagsáætlun og staðfesting á annarri fjármögnun ef það á við. Með umsókn þarf að fylgja staðfesting á því að umsækjendur hafi kynnt sér úthlutunarreglur sjóðsins og þá fyrirvara sem þar koma fram.

Markmið Framfarasjóðs SI er að styðja við og þróa framfaramál tengd iðnaði með áherslu á verkefni sem lúta að:

  • Eflingu menntunar fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám
  • Nýsköpun sem styrkir framþróun í iðnaði
  • Framleiðniaukningu með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi

Á síðasta ári voru veittir fjórir styrkir að upphæð 26 milljónir króna úr Framfarasjóði SI til eftirtalinna aðila:

Málmur – samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði og Iðnú fékk 14 milljóna króna styrk til þess að gefa út námsefni í málmtengdum iðngreinum í framhaldsskólum. Verkefnið eflir menntun í málmtengdum iðngreinum.

Mannvirki – félag verktaka, Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samtök arkitektastofa fékk 5 milljóna króna styrk til að þróa samræmda aðferðafræði vegna kostnaðaráætlana í mannvirkjagerð. Verkefnið stuðlar að aukinni framleiðni og hefur breiða skírskotun.

Ásgarður ráðgjöf fékk 6,5 milljóna króna styrk til að þróa leiðbeiningar og viðmið vegna nýsköpunarkennslu grunnskólanemenda með áherslu á að tengja list- og verkgreinar markmiðum grunnskóla undir yfirskriftinni Nýsköpunarskólinn. Verkefnið snýr að menntun og nýsköpun og hefur breiða skírskotun.

Félag íslenskra gullsmiða fékk 800 þúsund króna styrk til að skrásetja verkferla á gullsmíðaverkstæði. Verkefnið varðar heila grein og stuðlar að aukinni framleiðni.

 

Auglysing-2021