Fréttasafn



18. mar. 2015 Starfsumhverfi

Framhald aðildarviðræðna verði lagt í dóm þjóðarinnar

 

Stjórn Samtaka iðnaðarins telur mikilvægt að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til staðar á Íslandi fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Auka þarf samkeppnishæfni og skapa nauðsynleg skilyrði til aukinnar framleiðni. Það er grunnur að meiri verðmætasköpun og velmegun.

 

Stjórnmálamenn og stjórnvöld geta svo sannarlega haft áhrif á framvinduna og umræðuna í samfélaginu. Ferli ákvarðana ríkisvaldsins á að vera opið og byggjast á málefnalegri nálgun þannig að fólk og fyrirtæki geti verið sátt við afgreiðslu þótt þau séu ekki endilega sammála endanlegri niðurstöðu.  Opinber umræða undanfarna daga um stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB er því miður ekki dæmi um málefnalega nálgun.

 

Að gefnu tilefni vill stjórn SI ítreka ályktun nýafstaðins Iðnþings:

 

„Frjáls og óhindruð viðskipti og aðgangur að erlendum mörkuðum er lífæð íslenskra fyrirtækja. EES-samningurinn skiptir þar sköpum en óvíst er hvort hann einn þjóni hagsmunum okkar til lengri tíma litið. Nauðsynlegt er að tryggja að framhald aðildarviðræðna við ESB verði lagt í dóm þjóðarinnar.“

 

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI:

„Það eru 1.300 fyrirtæki innan vébanda Samtaka iðnaðarins. Það er ljóst að alþjóðasamningar hafa mikil áhrif á rekstrarumhverfi þeirra, en mismikið þó. Því eru skoðanir þeirra skiptar um aðild að Evrópusambandinu, en sameiginlega trúum við að lýðræðislegt ferli sé best til þess fallið að leiða málið til lykta. Málið þarf að vinnast þannig að sátt geti skapast um niðurstöðuna.“
 
Stjórn Samtaka iðnaðarins