Fréttasafn



30. maí 2017 Almennar fréttir

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins lætur af störfum

Stjórn Samtaka iðnaðarins hefur gert starfslokasamning við Almar Guðmundsson sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra síðastliðin tæp þrjú ár. Almar lætur af störfum frá og með deginum í dag og mun Jón Bjarni Gunnarsson gegna starfi framkvæmdastjóra tímabundið. Almar hefur tekið þátt í að móta nýja stefnu og nýja sýn fyrir samtökin og þakkar stjórnin honum góð störf síðustu ár í þágu samtakanna og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Stjórnin harmar að fréttir af ákvörðuninni hafi birst í fjölmiðlum áður en formleg tilkynning um hana var send út frá samtökunum.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI: „Stjórn Samtaka iðnaðarins vill færa Almari Guðmundssyni kærar þakkir fyrir störf hans fyrir samtökin sem hann hefur gegnt af trúmennsku og dugnaði. Almar hefur tekið þátt í miklu umbreytingarstarfi hjá samtökunum og gegnt lykilhlutverki í að auka slagkraft þeirra og sýnileika. Stjórnin mat það hins vegar sem svo að þetta væri rétti tímapunkturinn til að leita að nýjum aðila til að leiða daglegt starf samtakanna og byggja ofan á góðan árangur Almars.“