Fréttasafn14. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Framkvæmdastjóri SI heimsækir Elkem Ísland á Grundartanga

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, heimsótti Elkem Ísland á Grundatanga í morgun. Með honum í för voru Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, og Ingólfur Bender, hagfræðingur SI. Á móti þeim tók Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland, sem sýndi þeim starfsemina. Elkem Ísland framleiðir og selur kísilmálm með um 75% kísilinnihaldi sem blandaður er með járni og er sérhæfður til íblöndunar í stáliðnaði og járnsteypu um allan heim. Fyrirtækið framleiðir einnig kísilryk sem notað er sem íblöndunarefni í sement og steypu sem notað er hér á landi og erlendis. Kísilmálmur frá fyrirtækinu er meðal annars notaður í rafmagnsstál fyrir spenna og rafmótora sem notaðir eru í rafmagnsbíla. Umhverfismál skipa stóran sess í starfseminni og er það stefna fyrirtækisins að draga markvisst úr áhrifum á ytra umhverfi. Fyrirtækið hefur náð miklum árangri í því að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni.

Á myndinni hér fyrir neðan eru, talið frá vinstri, Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland, Ingólfur Bender, hagfræðingur SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, og Álfheiður Ágústsdóttir, fjármálastjóri Elkem Ísland.

Elkem2_1505393635161
Elkem1