Framkvæmdastjóri SI heimsótti Solid Clouds
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, heimsótti tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds þar sem Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri, og Stefán Björnsson, fjármálastjóri, tóku á móti honum á skrifstofu fyrirtækisins í Innovation House á Eiðistorgi. Hjá Solid Clouds sem er aðildarfyrirtæki SI starfa 16 manns að þróun tölvuleiks.
Á fundi þeirra var rætt um nýsköpunarlögin og það súrefni sem endurgreiðslur rannsókna- og þróunarkostnaðar eru fyrir sprotafyrirtæki. Þá var rætt um það hversu vel önnur ákvæði laganna nýtast. Í samtölum þeirra kom fram að hugvit er drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur framfara á 20. öldinni. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvit er ótakmarkað og án landamæra. Í alþjóðlegri samkeppni um mannauð og hugmyndir skiptir því höfuðmáli að skapa samkeppnishæft umhverfi. Hvatar vegna nýsköpunar eru forsenda þess að þekkingarsamfélagið verði byggt upp og fest í sessi.
Á myndinni eru, talið frá vinstri: Stefán Björnsson, Sigurður Hannesson og Stefán Gunnarsson.