Framkvæmdastjóri SI sæmdur fálkaorðu
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur verið sæmdur riddarakrossi, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir atbeina undir merkjum samtakanna InDefence og framlag til íslensks atvinnulífs. Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem sæmdi Sigurð ásamt 13 öðrum heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag.
Sigurður Hannesson: „InDefence var stofnað til varnar íslenskum hagsmunum eftir fjármálahrunið. Um tugur einstaklinga var í farabroddi en baklandið var stórt, þar sem hver og einn gegndi mikilvægu hlutverki. Samheldni þeirra, sterkar hugsjónir og baráttugleði var einstök.
Á sama tíma voru að mótast hugmyndir um skuldalækkun íslenskra heimila og síðar losun fjármagnshafta, en farsæl framkvæmd lagði grunninn að efnahagslegri endurreisn Íslands.
Ég er stoltur af þátttöku minni í þessum þjóðfélagsverkefnum, en lít á orðuveitinguna sem virðingarvott við þau öll sem lögðu hönd á plóg. Það er ánægjulegt að þessa grasrótarstarfs sé minnst nú þegar áratugur er frá blysförinni að Bessastöðum 2. janúar 2010 þegar forseti Íslands tók á móti áskorun tugþúsunda Íslendinga um að synja Icesave lögum staðfestingar. Hvert og eitt okkar getur sannarlega haft áhrif til góðs fyrir samfélagið, sér í lagi ef við tökum okkur saman.“
Nánar á vef forseta.
Viðskiptablaðið, 1. janúar 2020.
Kjarninn, 1. janúar 2020.
Fréttablaðið, 1. janúar 2020.
mbl.is, 2. janúar 2020.