Fréttasafn



6. jan. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Framkvæmdum seinkað og launþegum að fækka

Í helgarútgáfu Morgunblaðsins er fjallað um stöðuna á vinnumarkaði þar sem kemur meðal annars fram að ef hagvaxtarspár í ár gangi eftir sé útlit fyrir aukið atvinnuleysi í ár. Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, og Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI. 

Sigurdur-2018_1540906570689Launþegum í byggingariðnaði að fækka í fyrsta sinn í mörg ár

Sigurður segir áhyggjuefni hversu mikið hafi hægt á uppbyggingu hótela og innviða í ferðaþjónustu líkt og kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins daginn áður um slaka á hótelmarkaði þar sem hætt hefur verið við hótelverkefni. „Við sjáum líka að þótt mörg stór verkefni séu framundan hafa útboð tafist. Það er stöðugt verið að seinka framkvæmdum.“ Hann nefnir útboð vegna nýs Landspítala og stækkunar flugstöðvarinnar í Keflavík hafi tafist. „Á sama tíma hefur samkeppnin á útboðsmarkaði aukist. Smærri aðilar, sem voru að byggja íbúðir, eru farnir að bjóða í verk. Íbúðatalning okkar hefur leitt í ljós að færri íbúðaverkefni fara af stað en áður. Þá er launþegum í byggingariðnaði að fækka í fyrsta sinn í mörg ár.“ Hann segir að þá séu tölur Hagstofunnar um íbúðafjárfestingu ofmetnar nú um stundir eins og Seðlabankinn hafi m.a. bent á. Því sé þetta rétti tíminn til að hefja framkvæmdir og nýta slaka á markaði. Brýnt sé að verkefni hefjist á fyrri hluta árs.

Höldum ekki uppi hagvexti með einkaneyslu einvörðungu

Ingólfur segir útlit fyrir hægan hagvöxt í ár eða um og yfir 1% en að niðurstaðan sé háð því hvernig brugðist er við í hagstjórn. „Horfur eru á hverfandi vexti gjaldeyristekna og fjárfestinga atvinnuveganna. Hægur vöxtur gjaldeyristekna er mikið áhyggjuefni en lykilþátturinn í því að auka þann vöxt er að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins. Með aukinni samkeppnishæfni er lyft undir framleiðnivöxt og myndaður grundvöllur varanlegs lífskjarabata en hægt hefur á vexti framleiðni undanfarið. Það sem mun líklegast knýja hagvöxtinn í ár er einkaneyslan sem hefur haldið sæmilegum dampi, þótt dregið hafi úr vextinum. Við höldum hins vegar ekki hagvexti lengi uppi til lengdar með vexti einkaneyslu einvörðungu.“ 

Þá kemur fram í fréttinni að færri íbúðir séu í smíðum en Samtök iðnaðarins telja reglulega fjölda íbúða sem er í smíðum. Vitnað er til þess em fram hafi komið í Morgunblaðinu í september að ný íbúðatalning SI hefði bent til að dregið hefði úr byggingu nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Þannig voru um 14% færri íbúðir komnar að fokheldu en í mars sl.

Morgunblaðið, 4. janúar 2020.