Fréttasafn



24. mar. 2023 Almennar fréttir Mannvirki

Framleiða íbúðir til að eiga þegar landið fer að rísa

Vignir Steinþór Halldórsson, eigandi byggingarfélagsins Öxa og stjórnarmaður SI, segir í frétt Morgunblaðsins að vaxtahækkanir Seðlabankans hafi haft veruleg áhrif á íbúðamarkaðinn. „Við sjáum hvað er að gerast á leigumarkaði. Hann er að springa út. Fyrstu kaupendur hættu að standast greiðslumat, enda eru kröfurnar orðnar svo stífar, og eiga því margir ekki um annað að velja en að leigja eða flytja aftur í foreldrahús. Svo þegar vextirnir lækka mun þetta springa í andlitið á okkur og eftirspurnin aftur verða umfram framboð. Ég tók um daginn hringinn á kollegum mínum og almennt reyndust menn vera að rifa seglin. Þegar það er kreppa á auðvitað að framleiða vöru sem er ekki hilluvara til að eiga hana þegar landið fer að rísa,“ segir Vignir í Morgunblaðinu.

Jafnframt segir að vegna hækkandi fjármagnskostnaðar sé hætt við að verktakar sem sitja uppi með óseldar íbúðir og ógreidd lán gangi hratt á eigið fé. „Það eru alltaf einhverjir sem hafa borð fyrir báru af því að þeim hefur vegnað vel. Það gæti orðið stutt milli feigs og ófeigs. Arðsemin er að minnka hratt.“

Morgunblaðið, 24. mars 2023.