Fréttasafn6. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Framleiðum og kaupum íslensk gæði

Verðmæti íslenskrar framleiðslu eru mikil en iðnaðurinn skilar 120 milljörðum króna í launagreiðslur, 580 milljörðum í rekstrartekjur sem er 8,4% af landsframleiðslunni. Þá eru launþegar 17 þúsund sem er 9,4% allra launþega í landinu. Íslensk framleiðsla skilar 23% gjaldeyrisstekna þjóðarbúsins eða 270 milljarða króna. Fyrirtækin í iðnaðinum eru rúmlega 2.000 og skila 23 milljörðum króna í opinber gjöld í fyrra sem er næst mest allra atvinnugreina. Þetta kom meðal annars fram í erindi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á Framleiðsluþingi SI sem haldið var í Hörpu í morgun.

Í erindi hans kom jafnframt fram að framleiðsluiðnaður sé fjölbreyttur og byggir á þremur meginstoðum; matvælaframleiðslu, tækniframleiðslu og málmframleiðslu. Hann hvatti til samþættingar með það að markmiði að stækka iðnaðinn. Sigurður sagði að fyrir hver 10 störf í framleiðslu verði til 6 önnur störf og því skapi framleiðsluiðnaðurinn fjölda starfa í öðrum atvinnugreinum. Áætlað er að framleiðsluiðnaðurinn hér á landi skapi beint og óbeint 28 þúsund störf. 

_D4M9072
Þá vék Sigurður að mikilvægi þess að við höfum áhrif með vali og tók dæmi að ef 10% af innflutningi iðnaðarvara væri framleiddur hér á landi myndi það skapa um 1.600 störf, auka veltu fyrirtækjanna um 40 milljarða króna og bæta greiðslujöfnuð við útlönd um 1%. Það gæti síðan haft margföldunaráhrif í gegnum hagkerfið og aukið hagvöxt. Ef 30% af innflutningi 400 milljarða króna hefði það enn meiri áhrif og skapaði 4.600 störf, 120 milljarða króna í aukinni veltu og tæplega 3% bata í greiðslujöfnuði við útlönd.

Framleiðsluland eykur virði vöru og framleiðsla getur bætt orðspor

Framleiðsluland getur aukið virði vöru og nefndi Sigurður dæmi um að vín frá Frakklandi, úr frá Sviss og bílar frá Þýskalandi væri hægt að verðleggja hærra vegna þess lands sem vörurnar koma frá. Í samanburði á vörumerkjum landa sýnir rannsókn að Ísland er í 15. sæti og sagði Sigurðar að stefna ætti að því að koma Íslandi ofar á þann lista. Þar skipti miklu menning, saga, náttúra og að skapa sérstöðu en vandaðar vörur stuðla að góðu orðspori þjóða. Hann talaði um sendiherra sem bera þjóðinni gott vitni og geta skapað eftirspurn. 

Fjölga þarf sendiherrum íslensks iðnaðar

Sigurður sagði Ísland framleiða gæði og að framleiðsla sem byggir á sérstöðu og gæðum geti verið slíkur sendiherra. Hann nefndi dæmi um sendiherra líkt og Eyjafjallajökul, íslenska karlalandsliðið í fótbolta og Björk sem væri þekkt fyrir sína sköpunargáfu. Í því samhengi nefndi hann að á Bessastöðum ættu að sjást íslensk gæðahúsgögn og að Ísland ætti að vera í fremstu röð sem framleiðendur gæða. Þar skipti miklu máli menntun, starfsumhverfi, innviðir, nýsköpun og almenn lífsgæði. 

Í lok erindis síns hvatti hann til þess að sendiherrum íslensks iðnaðar verði fjölgað og vörumerkið Ísland verði ræktað. Hann sagði að við ættum að framleiða og kaupa sjálf íslensk gæði því þannig sköpum við verðmæti.

Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar.