Fréttasafn



13. nóv. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Framúrskarandi byggingarfyrirtækjum fjölgar

Framúrskarandi fyrirtækjum í byggingageiranum hefur fjölgaði samkvæmt nýjum lista Creditinfo sem birtur verður í Morgunblaðinu í vikunni. Það eru 24 fyrirtæki sem koma ný inn á listann en 10 falla út. 9% fyrirtækjanna eru framúrskarandi og vanskil dragast saman um 20% á milli áranna 2017 og 2018. Í frétt Péturs Hreinssonar, blaðamanns, í Morgunblaðsins er rætt við Friðrik Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, sem segir að þessar jákvæðu tölur um byggingargeirann lýsi ástandinu vel. „Þegar vel árar í byggingargeiranum er auðveldara fyrir fyrirtæki í geiranum að standa sig vel. Það selst allt sem byggt er til dæmis. Árferðið skilar sér í þessum tölum, sem er bara afskaplega gleðilegt.“

Aukin krafa um gæðakerfi

Friðrik segir jafnfram að það hafi einnig verið mikill áróður innan byggingargeirans um að fyrirtæki standi betur að öllum málum. „Ég er alveg viss um að einhvern hluta af þessu má rekja til aukinna krafna um gæðakerfi og að allt utanumhald er betra. Það eru margir þættir sem hafa áhrif til þessarar jákvæðu niðurstöðu.“

Áfram góður gangur í byggingargeiranum

Þá kemur fram að það er mat Friðriks að það bendi allt til þess að áfram verði góður gangur í byggingargeiranum þrátt fyrir að raddir um kólnun hagkerfisins heyrist sífellt oftar. „Ég keyri um tvisvar á ári og tel íbúðir í nýbyggingu. Síðan vinnum við saman að greiningu og það er ekki samdráttur. Bara sem dæmi: á milli
talninga í mars og september er rúmlega 18% aukning í framleiðslu nýrra íbúða. Samt sem áður vitum við að það er uppsöfnuð þörf. Ég hef ekki trú á því að byggingargeirinn hægi neitt mikið á sér þó að við sjáum breytingar í efnahagslífinu.“ 

Morgunblaðið, 9. nóvember 2018.