Fréttasafn



20. okt. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Friðhelgisskjöldur ógiltur hjá Evrópudómstólnum

Félagsmenn Samtaka iðnaðarins voru áhugasamir um rafrænan fund sem samtökin stóðu fyrir í morgun um nauðsynlegar aðgerðir í kjölfar dóms Evrópudómstólsins - Schrems II. Fundarstjóri var Steinunn Pálmadóttir, lögfræðingur hjá SI. 

Á fundinum fór Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður á LEX lögmannsstofu og sérfræðingur í hugverka- og tæknirétti, yfir niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli nr. C-311/18 (Schrems II) sem varðar lögmæti miðlunar Facebook á persónuupplýsingum frá netþjónum á Írlandi og til Bandaríkjanna. Annars vegar ógilti dómstóllinn svokallaðan friðhelgisskjöld (EU-US Privacy shield), sem byggði á samkomulagi milli Evrópusambandsins og bandarískra stjórnvalda er laut að því að heimila vinnslu persónuupplýsinga um einstaklinga innan Evrópska efnahagssvæðisins í Bandaríkjunum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hins vegar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að svokallaðir staðlaðir samningsskilmálar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (e. standard contractual clauses) halda gildi sínu vegna flutnings persónuupplýsinga til vinnsluaðila sem hafa staðfestu í svokölluðum þriðju ríkjum utan EES svæðisins, að því gefnu að notkun þeirra veiti fullnægjandi vernd, þ.e. sambærilega þeirri sem er veitt innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Flest, ef ekki öll fyrirtæki hérlendis styðjast við þjónustu sem á einn eða annan hátt má rekja til Bandaríkjanna. Á fundinum var farið yfir þær aðgerðir sem fyrirtæki þurfa að grípa til þar sem ekki er lengur unnt að nýta sér þjónustu þeirra fjölmörgu bandarísku fyrirtækja sem ýmist studdust við ákvæði friðhelgisskjaldarins eða notuðust við staðlaða samningsskilmála, án frekari aðgerða og verndarráðstafana.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Fundur-20-10-2020-2-Á efstu myndinni á skjánum má sjá Steinunni Pálmadóttur, lögfræðing hjá SI, sem var fundarstjóri.

Fundur-20-10-2020-3-Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður á LEX lögmannsstofu og sérfræðingur í hugverka- og tæknirétti.