Frumkvöðull í framleiðslu teppa fær viðurkenningar
Sigrún Lára Shanko textíllistamaður, stofnandi Shanko Rugs/Élivogar ehf., sem er eitt af aðildarfyrirtækjum SI, hlaut tvær viðurkenningar á hátíð Alþjóðasamtaka uppfinninga- og frumkvöðlakvenna (GWIIN / EUWIIN), sem haldin var í borginni Bari á Ítalíu í síðustu viku. Viðurkenningarnar sem Sigrún Lára hlaut nefnast „Special Recognition Award 2017 for Ingenious & Innovative Achievements“ og „Gold Winner for Exceptional Creativity 2017“.
Alls voru 40 konur í nýsköpun tilnefndar frá ýmsum löndum en 15 verðlaun eru veitt og hlutu íslenskar konur flest þeirra. Íslensku konurnar voru tilnefndar af KVENN, félagi kvenna í nýsköpun á Íslandi. Auk Sigrúnar Láru hlutu fjórar aðrar íslenskar konur verðlaun fyrir nýsköpun. Þær eru Sandra Mjöll Jónsdóttir, stofnandi líftæknifyrirtækisins Platome, en hún vann fyrst íslenskra kvenna aðalverðlaun á hátíðinni, Hjördís Sigurðardóttir, stofnandi Aldin Biodome Reykjavík, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, stofnandi Mussila, og dr. Þorbjörg Jensdóttir, stofnandi Hap+.