Fréttasafn



5. jún. 2018 Almennar fréttir

Frumvarp um persónuvernd verði samþykkt fyrir sumarhlé

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands skiluðu í dag sameiginlegri umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um persónuvernd en með frumvarpinu er nýtt regluverk Evrópusambandsins (GDPR) innleitt í íslenskan rétt. Í umsögninni segir að afar mikilvægt sé að reglugerðin verði lögfest hið fyrsta enda gætu tafir á því leitt til röskunar á starfsemi fyrirtækja sem eiga í viðskiptum við aðila í ríkjum innan Evrópusambandsins. Samtökin hvetja því eindregið til þess að frumvarpið verði samþykkt áður en þingið fer í sumarhlé, en í umsögninni eru tilteknar tillögur að breytingum.

Í umsögninni kemur jafnframt fram að samtökin hafi fengið tækifæri til að gera athugasemdir við upphafleg frumvarpsdrög í febrúar síðastliðnum og tóku jafnframt þátt í opinberu samráðsferli vegna málsins í mars með ítarlegri umsögn um málið. Margar breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu á vinnslustigi þess hafi verið til bóta en þó standi eftir veigamikil atriði sem ekki hefur verið brugðist við. Reglugerðin leggi verulegar auknar byrðar á fyrirtæki og leiði óhjákvæmilega til mikils kostnaðarauka fyrir atvinnulífið. Það hafi áhrif á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs hvernig reglugerðin er innleidd og engin rök mæli til þess að ganga lengra hér á landi en annars staðar. 

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.