Fréttasafn



18. mar. 2024 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Full ástæða til að endurskoða sérfræðikerfið

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt mbl.is að það komi sér gríðarlega á óvart að hægt hafi verið að flytja inn starfsmenn á veitingahús undir þeim formerkjum að þeir væru sérfræðingar og er þar vísað í mál Quang Lé sem situr nú í gæsluv­arðhaldi grunaður um mansal og peningaþvætti. „Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum undanfarin ár talað mjög fyrir hugverkaiðnaði og vexti hans. Þá höfum við birt greiningar sem sýna að það vanti þúsundir sérfræðinga til starfa í iðnaðinum næstu árin.“ Í frétt mbl.is kemur fram að Sigurður segi að menntakerfið muni ekki anna þessari þörf en um sé að ræða mjög sérhæf störf oft á tíðum og það þurfi því að flytja inn erlenda sérfræðinga í þessi störf.

Þegar Sigurður er spurður um hvort að það þurfi að setja á frekari hömlur á þessi sérfræðileyfi segir hann fulla ástæðu til að skoða það ef það sé verið að nota kerfið og stofnanir þess til að flytja fólk til landsins sem ekki séu sérfræðingar. „Mér er mjög brugðið að heyra það að matsölustaðir geti flutt inn fólk á þessum grund­velli. Ég hafði bara ekki hugarflug í það að þetta kerfi yrði einhvern veginn notað í þeim tilgangi og það kemur mér verulega á óvart.“ Sigurður segist vita af fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum sem nýti sér þessi sérfræðileyfi á réttum forsendum og hafi kerfið virkað sem skyldi heilt yfir að hans sögn.

mbl.is, 15. mars 2024.