Fulltrúar Öryggisskóla iðnaðarins skoða sænskan skóla
Fulltrúar frá Öryggisskóla iðnaðarins sem var stofnaður í byrjun árs lögðu leið sína til Svíþjóðar til að skoða sambærilegan sænskan öryggiskóla. Fulltrúi SI, Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var meðal þeirra sem voru í sendinefndinni. Auk hans voru fulltrúar Samtaka rafverktaka, Rafmenntar, Iðunnar og Vinnueftirlitsins.
Öryggisskóli iðnaðarins er í jafnri eigu Iðunnar fræðsluseturs og Rafmenntar. Meginmarkmið skólans er að stuðla að aukinni öryggismenningu í iðnaði og þar með fækkun slysa. Skólinn mun bjóða fræðslu og þjálfun og er unnið að því að skólinn geti hafið starfsemi síðar á árinu. Megináhersla verður lögð á byggingariðnaðinn.
Ásdís Gréta Hjálmarsdóttir hefur verið ráðin sem Leiðtogi Öryggisskóla iðnaðarins og hóf hún störf í byrjun febrúar. Á vef Iðunnar er hægt að nálgast viðtal við Ásdísi sem er menntuð sem bifvélavirki og með B.Sc. í orku- og umhverfistæknifræði frá Háskóla Íslands.
Sendinefndin í sænska öryggisskólanum, talið frá vinstri, Ólafur Ástgeirsson, Jóhann Pétursson, Hjörleifur Stefánsson, Þór Pálsson, Eyjólfur Bjarnason, Friðrik Á. Ólafsson, Ásdís Gréta Hjálmarsdóttir, Margrét Arnarsdóttir, Vilborg Helga Harðardóttir og Axel Pétursson.