Fulltrúar SI á arkitektasýningu Feneyjartvíæringsins
Fulltrúar SI, þau Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, auk Halldórs Eiríkssonar, formanns Samtaka arkitektastofa, voru viðstödd opnun á íslenska skálanum á alþjóðlegri arkitektasýningu Feneyjartvíæringsins sem opnaði í síðustu viku.
Á vef Smartlands er fjallað um sýninguna og er myndin hér fyrir ofan sem tekin er af Marta Buso fengin að láni þaðan.
Á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem Ísland taki þátt. Sýningin ber heitið Lavaform og í sýningarteyminu eru Arnhildur Pálmadóttir sýningarstjóri og arkitekt, Arnar Skarphéðinsson arkitekt, Björg Skarphéðinsdóttir hönnuður og Sukanya Mukherjee arkitekt frá s. ap arkitektum, Andri Snær Magnason rithöfundur og Jack Armitage tónlistarmaður og margmiðlunarhönnuður. Um grafíska hönnun sér hönnunarstofan Studio Studio.
Á myndinni eru talið frá vinstri Sigurður Hannesson, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, Halldór Eiríksson og Eyrún Arnarsdóttir.