Fréttasafn9. feb. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Fulltrúar SI á ráðstefnu um innviðafjárfestingar

Tveir fulltrúar Samtaka iðnaðarins tóku þátt í ráðstefnu Landssamtaka lífeyrissjóða og innviðaráðuneytisins um innviðafjárfestingar sem bar yfirskriftina Fjárfesting í þágu þjóðar – möguleikar á samvinnuverkefnum hins opinbera og lífeyrissjóða við uppbyggingu innviða. Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs, hélt erindi á ráðstefnunni undir yfirskriftinni Samvinnuverkefni frá sjónarhóli verktakamarkaðar og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, var í pallborðsumræðum.

Á ráðstefnunni kom fram mikill samhljómur á meðal fyrirlesara um brýna þörf á auknum fjárfestingum í innviðum, ekki síst samgönguinnviðum, og notkun samvinnuverkefna hins opinberra og einkaaðila. Fulltrúar Samtaka iðnaðarins lögðu áherslu á mikilvægi þess að undirbúningur slíkra samvinnuverkefna sé góður og hugað sé að ákveðnum grundvallaratriðum svo slík verkefni takist vel til. Þau nefndu fyrirsjáanleika verkefna, sameiginlegan skilning á því hvað samvinnuverkefni er og hvaða aðferðum á að beita. Þá þurfi að tryggja svigrúm einkaaðila til nýsköpunar eða bestunar í slíkum verkefnum þar sem hagkvæmnin liggur oftar en ekki í hönnun og rekstri mannvirkisins. Auk þess þurfi að koma til móts við kostnað markaðarins af þátttöku í útboði slíkra verka, sem muni verða mikill, og taka tillit til þeirra áskorana sem felist í sveiflukenndu íslensku efnahagslífi en óstöðugleikinn skapi aukna áhættu fyrir langtímaverkefni á þessu sviði.

Hér er hægt að nálgast glærur sem Björg Ásta var með á ráðstefnunni.

PallbordB_2Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, þriðji frá hægri. 

Bath3Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs.