Fréttasafn



3. sep. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fulltrúar SI tóku þátt í TechBBQ í Kaupmannahöfn

Fulltrúar SI tóku þátt í TechBBQ ráðstefnu sem fór fram í Kaupmannahöfn í ágúst en um er að ræða einn stærsta vettvang á Norðurlöndum fyrir sprotafyrirtæki, fjárfesta og aðra sem starfa í nýsköpunarumhverfinu. Yfir 50 íslensk sprotafyrirtæki tóku þátt að þessu sinni, sem undirstrikar kraftinn og fjölbreytnina sem íslenskt nýsköpunarumhverfi býr yfir.

Fulltrúar SI, Nanna Elísa Jakobsdóttir og Erla Tinna Stefánsdóttir viðskiptastjórar á iðnaðar- og hugverkasviði, kynntu starfsemi samtakanna í samstarfi við Business Iceland í morgunkaffi undir yfirskriftinni Who's got your back? – The faces behind the advocacy þar sem gestir fengu tækifæri til að kynnast því hvernig Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunagæslu fyrir íslenskan iðnað og nýsköpun.

Á ráðstefnunni var boðið upp á fjölbreyttar pallborðsumræður og erindi um meðal annars:

  • Gervigreind og helstu áhættuþætti hennar
  • Tækni með tvíþætt notagildi (e. dual use technology)
  • Sjálfbærar virðiskeðjur

Nanna Elísa segir að Samtök iðnaðarins séu öflugur hluti af íslenska stuðningsumhverfinu. „Það var ánægjulegt að finna fyrir skilningi á því hjá íslenskum sprotafyrirtækjum. Með öflugri hagsmunagæslu tryggjum við samkeppnishæfni fyrirtækja og að nýsköpunarumhverfið fái áfram þann stuðning sem þarf til að dafna. Það sem stóð upp úr var hversu öflugur íslenski hópurinn var, við eigum fullt erindi á alþjóðavettvang og stuðningsumhverfið mætti sterkt til leiks.“ 

Nanna Elísa segir að auk formlegrar dagskrár hafi TechBBQ skapað fjölda tækifæra til tengslamyndunar, hvort sem það var við kvöldverðarborðið, í kaffihléum eða á viðburðum tengdum ráðstefnunni, til að mynda á tengslaviðburði sendiherra Íslands í Danmörku. Hún segir að þátttaka SI á ráðstefnunni sé liður í markvissri vinnu samtakanna við að efla íslenskan tækni- og hugverkaiðnað. 

Original-B4C6A033-D242-47E7-BDC4-B627B3A2C59CErla Tinna Stefánsdóttir og Nanna Elísa Jakobsdóttir viðskiptastjórar á iðnaðar- og hugverkasviði tóku þátt í TechBBQ í Kaupmannahöfn.