Fulltrúar SIV sátu norrænan fund innviðaverktaka
Fulltrúar frá Samtökum innviðaverktaka, SIV, tóku nýverið þátt í fundi norrænna systursamtaka í Kaupmannahöfn þar sem ræddar voru helstu áskoranir og framtíðarhorfur í innviðafjárfestingu. Fulltrúar SIV á fundinum voru Vilhjálmur Þór Matthíasson, formaður félagsins, Gísli Elí Guðnason, varaformaður, Pétur Kristjánsson, stjórnarmaður, og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.
Á fundinum fóru löndin yfir ýmsa lykilþætti varðandi stöðu markaðarins, meðal annars framtíðarhorfur fyrir innviðafjárfestingu og komandi verkefni í löndunum. Mikið var rætt um sjálfbærnimál, s.s. losunarlausa verkstaði, auk þess sem mannauðs- og öryggismál voru tekin fyrir. Sameiginlegar áskoranir í greininni, á borð við háa vexti og verðbólgu, voru einnig ræddar sem og framtíðarverkefni samtakanna.
Á fundinum kom fram að norrænt samstarf væri mikilvægur vettvangur til að efla tengsl milli samtakanna og finna sameiginlegar lausnir á þeim áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir. Næsti fundur verður haldinn í Noregi á næsta ári.