Fréttasafn



29. ágú. 2017 Almennar fréttir Menntun

Fulltrúar Team Spark þakka SI fyrir stuðninginn

Samtök iðnaðarins fengu góða gesti í dag þegar fulltrúar Team Spark komu færandi hendi með þakkarbréf og mynd fyrir að vera stuðningsaðili keppendanna. En undanfarin ár hafa Samtök iðnaðarins verið meðal stoltra styrktaraðila Team Spark sem er lið verkfræðinema við Háskóla Íslands sem hanna og smíða rafkappakstursbíla til keppni á alþjóðlegum vettvangi í „Formula Student“ keppninni þar sem lið frá mörgum af bestu tækniháskólum heims keppast um að smíða besta kappakstursbílinn. Liðið hefur komið að ýmsum verkefnum innan samtakanna, meðal annars í tengslum við GERT verkefnið. Þá hafa liðsmenn haldið kynningar í grunnskólum landsins, kynnt hvað þau eru að læra og hvernig það tengist hönnun bílsins. Markmið kynninganna eru að ýta undir áhuga á raunvísindum og tækni hjá grunnskólanemendum sem með tímanum skilar sér út í atvinnulífið.

Frá árinu 2011 hefur Team Spark tekið þátt í Formula Student keppnisröðinni sem er haldin út um allan heim á hverju ári. Í ár tók liðið þátt í tveimur keppnum sem haldnar voru á Ítalíu og í Austurríki. Í þakkarbréfinu kemur meðal annars fram að ómetanleg sambönd, reynsla og þekking sé hluti af því sem styrktaraðilar miðla til liðsins ár eftir ár og fyrir það eru þátttakendurnir ákaflega þakklátir. Í bréfinu segir jafnframt að þetta frábæra og einstaka samstarf háskólanema og fyrirtækja sé ómetanlega verðmætt og ein helsta ástæða þess að verkefnið lifir áfram.

Á myndinni tekur Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI (t.h.), við þökkunum frá Marin Lilju Ágústsdóttur, framkvæmdarstjóra og vélaverkfræðinema (t.v.), og Emmu Rún Antonsdóttur, hópstjóra og iðnaðarverkfræðinema.