Fulltrúi SI á norrænum fundi um mannauð í mannvirkjaiðnaði
Fulltrúar frá Norðurlöndunum funduðu í Osló um þróun vinnumarkaðarins, starfsmenntun og mannauðsmál í mannvirkjaiðnaði. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá Samtökum iðnaðarins, tók þátt í fundinum sem fór fram í lok ágúst. Fundurinn er vettvangur fyrir samtök á sviði mannvirkja og mannauðs á Norðurlöndum til að deila reynslu og ræða þróunarmál tengd mannvirkjaiðnaði, starfsmenntun og hæfniþörf atvinnulífsins.
Stærsta samgöngubót Noregs í áratugi
Fundurinn hófst með heimsókn í höfuðstöðvar norsku systursamtaka SI og kynningu á Fornebubanen, stærstu samgönguframkvæmd Noregs frá árinu 1960. Um er að ræða nýja neðanjarðarlestarleið milli Fornebu og miðborgar Osló, þar sem jarðgangar eru allt að 45 metrum undir sjávarmáli. Verkefnið, sem er unnið af byggingarfyrirtækinu Veidekke, er mótað af metnaðarfullum markmiðum um sjálfbærni. Allur bílafloti á framkvæmdasvæðinu er rafknúinn, boranir fara fram í lokuðum kerfum neðanjarðar og áhersla er lögð á að draga eins mikið úr umhverfisáhrifum og kostur er. Leitast er við að gera Fornebubanen að fyrirmyndarverkefni í umhverfisvænni innviðauppbyggingu með áherslu á lágmörkun kolefnisspors og nýtingu grænna lausna.
Fjölbreytt nálgun í starfsmenntun, skóli á byggingarstað
Á öðrum degi fundarins heimsóttu þátttakendur Kuben starfsmenntaskólann, þar sem fylgst var með sveinsprófi í byggingagreinum, þar kom fram að flest öll prófin fara fram hjá atvinnulífinu, undantekning þegar eru haldin próf í skólanum. Skólastjóri Kuben tók á móti hópnum og sagði að það væri mjög gott samstarf við atvinnulífið sem væri nauðsynlegt því að atvinnulífið hreyfðist hraðar en skólayfirvöld.
Því næst var einnig farið í heimsókn í Skole på byggeplass, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1998. Verkefnið miðar að því að styðja ungt fólk, sem hefur fallið út úr hefðbundnu námi, til þátttöku í starfsmenntun og virkni á vinnumarkaði. Verkefnið byggir á samstarfi skólayfirvalda, Vinnumálastofnunar, sveitarfélaga og atvinnulífsins í Osló, með fyrirtæki sem virkan samstarfsaðila. Stjórnvöld fjármagna nemendaígildi en nemendur á aldrinum 18–24 ára (og víða eldri) fá þar tækifæri til að ljúka einu ári í skóla ásamt starfsnámi á byggingarsvæði, en vanalega tekur námið tvö ár í skóla og tvö ár í þjálfun á vinnustað. Á hverju ári taka 13–14 nemendur þátt og velja sér nám úr 9–11 byggingatengdum greinum, með það að markmiði að ljúka sveinsprófi, en tæplega 90% nemenda hafa útskrifast og starfa við mannvirkja- og byggingagreinar í dag.
Til samanburðar er iðn- og starfsgreinanámi í Noregi skipt í um 220 greinar, á meðan aðeins 43 greinar eru lögverndaðar á Íslandi. Hér á landi eru jafnframt byggingareglugerðir sem taka mið af séríslenskum aðstæðum, svo sem harðbýlu veðurfari, jarðskjálftum og þeirri einstöku notkun hitaveitu sem ekki þekkist annars staðar í heiminum. Iðnnemar þurfa því að búa yfir sértækri þekkingu og færni sem endurspeglar þessar aðstæður.
Umræður um áskoranir og framtíðarfærni
Á fundinum fór fram ítarleg umræða um þróun starfsmenntunar og mannauðsmála í byggingargeiranum í hverju landi fyrir sig. Sérstaklega var fjallað um innleiðingu vinnustaðaþjálfunar og samþættingu náms og starfs, þar sem Ísland er framarlega í að meta hæfni í rafrænni ferilbók í stað hefðbundinnar tveggja ára vinnustaðaþjálfunar. Hérlendis fá fyrirtæki ekki greitt beint fyrir að taka nemendur í vinnustaðanám, heldur geta þau sótt í vinnustaðanámssjóð, á meðan stjórnvöld í Noregi greiða slíkt beint. Þá kom einnig fram að nemendur í starfsnámi erlendis fá yfirleitt minna greitt en íslenskir nemendur.
Rætt var um þróun kynjahlutfalla og fjölda nemenda í iðnnámi, sem er áskorun í öllum löndum. Sameiginlegur skilningur var á mikilvægi þess að jafna kynjakvóta og fjölga konum í iðngreinum. Áherslur á sjálfbærni, stafræna þróun og gervigreind voru einnig áberandi, en löndin líta á þessi svið sem lykilverkefni næstu ára. Í því samhengi var nefnt dæmi frá Noregi þar sem komið hefur verið á fót sérstökum garði þar sem almenningur getur keypt fjölbreyttar endurunnar vörur, allt frá timbri til flísa, á lægra verði.
Umræður voru einnig um viðurkenningu prófa og starfsréttinda milli Norðurlanda. Þátttakendur voru sammála um að íslensk iðnmenntun væri sérstaklega víðtæk og veigamikil og að íslenskir iðnnemendur hefðu yfirleitt breiðari menntun en þeir sem fylgja afmörkuðum námsleiðum, til dæmis í Kuben í Noregi.
Samvinna lykill að sjálfbærri þróun iðnaðarins
Hulda Birna segir að fundurinn hafi undirstrikaði mikilvægi þverfaglegs og þverþjóðlegs samstarfs um mennta- og mannauðsmál í byggingariðnaði. Ísland skeri sig úr með áherslu á að iðnmeistarar hafi yfirgripsmikla þekkingu á heildarfaginu, sem endurspegli bæði smæð vinnumarkaðarins og fjölbreyttar þarfir innan hvers fags.
Þátttakendur lögðu áherslu á þróun sveigjanlegri leiða í starfsmenntun, nýtingu tæknilausna og aukið aðgengi að iðnnámi, sérstaklega fyrir konur og ungt fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Jafnframt var rætt um mikilvægi þess að menntakerfið þróist í takt við tæknibreytingar og síbreytilegar kröfur atvinnulífsins, með sjálfbærni og stafrænni færni sem leiðarljós.
Farið var í bátsferð þar sem þátttakendur skoðuðu nýtt byggingasvæði á eyjum í nágrenni Osló. Þar hefur verið grafið úr eyjunum til að skapa landrými fyrir fjölbýlishús í kjölfar mikils húsnæðisskorts. Að auki var heimsóttur kafaraskóli þar sem nemendur eru þjálfaðir í að vinna við uppbyggingu innviða undir sjávarmáli.
Þátttaka Samtaka iðnaðarins skilar dýrmætri innsýn
Hulda Birna segir að með þátttöku sinni styrki Samtök iðnaðarins tengsl við norræna samstarfsaðila og öðlast dýrmæta innsýn í lausnir sem geti nýst til að efla starfsumhverfi og hæfni innan byggingariðnaðarins á Íslandi. Slík samvinna styður við stefnu SI um að bæta menntun, efla nýsköpun og tryggja hæft vinnuafl til framtíðar. Samtök iðnaðarins leggja ríka áherslu á að þróa starfsmenntun í takt við þarfir atvinnulífsins og auka samstarf við önnur Norðurlönd á sviði mennta- og mannauðsmála, með það að markmiði að efla samkeppnishæfni og stuðla að sjálfbærum vexti iðnaðarins.