Fréttasafn



11. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fulltrúi SI á norrænum fundi um nýsköpun í Helsinki

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, tók þátt í árlegum norrænum fundi samtaka iðnaðar á Norðurlöndunum um rannsóknir, þróun og nýsköpun sem fór fram fyrir skömmu í Helsinki í Finnlandi. Fundinn sækja fulltrúar sem leiða málaflokk nýsköpunar hjá systursamtökum Samtaka iðnaðarins, einn frá hverjum samtökum. Ásamt Nönnu sátu eftirtaldir fundinn; frá Finnlandi var Riikka Heikinheimo, Director of Innovation and Competence hjá Elinkeinoelämän keskusliitto, frá Svíþjóð var Emil Görnerup, Head of Research and Innovation Policy hjá  Svenskt Nåringsliv, frá Noregi var Lise Våland, Senior adviser, Department for Competence and Innovation hjá Næringslivets Hovedorganisasjon NHO og frá Danmörku var Mikkel Haarder, Deputy director for Education, Research and Diversity. 

Sammála um að fjárfesting í nýsköpun sé fjárfesting í hagvexti

Fundurinn var tvískiptur. Á fyrri degi héldu fulltrúar kynningu á stöðu landa sinna þegar kemur að fjárfestingu í nýsköpun auk þess sem tekin var opinská umræða um framtíð rannsókna og þróunar á Norðurlöndunum. Af umræðunum var ljóst að sömu áskoranir blasa við í nágrannalöndum Íslands; nauðsynlegt er að auka fjölbreytileika efnahagskerfa og stuðla að því að aukin tæknivæðing geti leyst samfélagslegar áskoranir svo sem loftslagsbreytingar og öldrun þjóða. Önnur lönd, líkt og Ísland, glíma við skort á mannauði sem hefur menntun og hæfni til þess að starfa með nýjustu tækni auk þess sem fæðingartíðni hefur sjaldan verið lægri í þessum löndum. Samtökin eru öll sammála um að fjárfesting í nýsköpun sé fjárfesting í hagvexti. Á fundinum var tekin sérstök umræða um þjóðaröryggi í tengslum við nýsköpun, rannsóknir og þróun en ljóst er að með aukinni tæknivæðingu, með flutningi mikilvægra gagna í skýið og auknum netárásum þjóða utan Evrópusambandsins á lönd í Vestur-Evrópu hafa áhyggjur af öryggi gagna aukist. Auk þess eru stundaðar brautryðjandi rannsóknir og þróun í löndunum öllum en slík þekking verður sífellt verðmætari í heiminum.

Heimsóttu eina af fremstu rannsóknarstofnunum Evrópu, VTT

Á seinni degi fundarins birtust mjög lýsandi dæmi um slíkar rannsóknir og þróun í heimsókn norrænu fulltrúanna í VTT sem er ein af fremstu rannsóknarstofnunum Evrópu. VTT er sjálfstæð stofnun sem fjármögnuð er af finnska ríkinu en markmið stofnunarinnar er að efla nýtingu og markaðssetningu rannsókna og tækni í viðskiptum og samfélagi. Finnska ríkið styður við VTT vegna þess að Finnar telja einsýnt að með vísindalegum og tæknilegum aðferðum sé hægt að breyta stórum alþjóðlegum áskorunum í sjálfbæran vöxt fyrir fyrirtæki og samfélag og með því að leiða saman rétta fólkið, viðskipti, vísindi og tækni sé hægt að leysa stærstu áskoranir samtímans. Í heimsókninni fengu kynningu á háþróaðri skammtatölvu (e. quantum computer) sem hefur verið þróun í Finnlandi um árabil. Tölvan, sem hefur fengið nafnið HELMI, var tekin í notkun árið 2021 en hún eru tengd ofurtölvunni LUMI (e. supercomputer) sem er öflugasta tölvan sinnar tegundar í Evrópu. Þetta þýðir að HELMI og LUMI geta saman leyst flóknari vandamál á styttri tíma en nokkur önnur tölva. Á vefsíðu VTT er hægt að nálgast frekari upplýsingar. 

 Image-20230824-121145-2c1427ecNanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, hélt erindi um stöðu fjárfestinga í nýsköpun á Íslandi. 

Norrænu fulltrúarnir, talið frá vinstri, Saara Kuittinen-Kärkkäinen, Manager, International Affairs and Policy, Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Lise Våland, Senior adviser, Department for Competence and Innovation, Næringslivets Hovedorganisasjon NHO, Emil Görnerup, Head of Research and Innovation Policy, Svenskt Nåringsliv, Riikka Heikinheimo, Director of Innovation and Competence, Elinkeinoelämän keskusliitto, Hannu Väänänen, Senior Adviser hjá VTT.