Fréttasafn



10. des. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fulltrúi SI í sendinefnd á nýsköpunarráðstefnunni SLUSH

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, sótti nýverið nýsköpunarráðstefnuna SLUSH í Helsinki í Finnlandi. Nanna Elísa var hluti af sendinefnd Íslandsstofu og íslenska sendiráðsins í Finnlandi en um 80 Íslendingar tóku þátt í ráðstefnunni frá 40 ólíkum fyrirtækjum. SLUSH er einn stærsti tengslaviðburður fjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja í heiminum en árlega sækja í kringum 20 þúsund einstaklingar ráðstefnuna. Í ár var ráðstefnan smærri í sniðum vegna heimsfaraldurs en þrátt fyrir það voru gestir í kringum 8.800 talsins, þar af í kringum 1.700 fjárfestar í forsvari fyrir um eina trilljón evra. Því er ráðstefnan kölluð „the largest gathering of venture capital in the world“ eða stærsta samkoma vísisjóðsfjármagns í heiminum.

Tilgangur ráðstefnunnar er að tengja saman ólíka aðila í sprotasamfélagi Evrópu sem geta stuðlað að bættum heimi með stofnun fyrirtækja í kringum nýjar uppfinningar og hugmyndir.

Nýr tölvuleikur, samfélagsmiðill og forrit til að greina peningaþvott

Nokkrir Íslendinga tók þátt í formlegri dagskrá viðburðarins, þar á meðal Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri Mainframe Industries, sem er félagsmaður SI og Samtaka leikjaframleiðenda, IGI. Mainframe Industries er leikjafyrirtæki í örum vexti sem nálgast tölvuleiki á nýstárlegan hátt með aukinni þátttöku áhorfenda að leiðarljósi. Þá kynntu tvö íslensk fyrirtæki vörur sínar í sérstöku Nordic Showcase. Guðmundur Hafsteinsson, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins Fractal 5, kynnti samfélagsmiðilinn Break og Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Lucinity, kynnti forrit sem notað er til þess að greina peningaþvott. Davíð Helgason, fjárfestir og frumkvöðull, tók þátt í umræðum um umhverfisvænar fjárfestingar.

Vel sóttir viðburðir Íslandsstofu

Íslandsstofa stóð fyrir tveimur vel heppnuðum hliðarviðburðum á ráðstefnunni. Sá fyrri var haldinn ásamt íslenska sendiráðinu í Helsinki þegar alþjóðlegum fjölmiðlum var boðið að hitta íslensku sendinefndina. Sá síðari var miðaður að fjárfestum sem höfðu áhuga á að kynnast íslenskum fyrirtækjum. Báðir viðburðir voru vel sóttir.

Mikil tækifæri í Evrópu

Nanna Elísa segir að af ráðstefnunni að dæma þá séu mikil tækifæri í Evrópu fyrir stofnun og vexti fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Fjármagn í Evrópu til fyrirtækja á frum- og vaxtarstigi hafi sjaldan verið eins mikið og því sé auðveldara en áður að koma góðri hugmynd á koppinn. Því sé mikilvægt að Ísland sé samkeppnishæft þegar kemur að mannauði, fjármagni og nýsköpun.

Nanna_Slush-desember-2021_3

Nanna_Slush-desember-2021_2_1639141013886Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Mainframe Industries, ásamt Anton Backman frá Play Ventures sem er sjóður sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum í leikjaiðnaði.