Fréttasafn



8. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Fullyrðingar hraktar um að fjármálakerfinu sé um að kenna

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Morgunblaðsins að  það sé„allt útlit fyrir“ fyrir að borgarstjóri þurfi að draga til baka orð sín þess efnis að það sé fjármálakerfinu um að kenna að framkvæmdir á íbúðamarkaði hafi dregist saman. „Þetta hefur bara verið algjörlega hrakið. Það þýðir heldur ekki að kenna verktökunum um, þeir vilja bara byggja íbúðir sem mæta eftirspurn og seljast.“

Framboð á lóðum stendur húsnæðisuppbyggingu fyrir þrifum

Þá bendir Sigurður máli sínu til stuðnings á könnun sem samtökin létu framkvæma fyrir ári meðal sinna félagsmanna í byggingariðnaði. „Þar kom skýrt fram að í þeirra huga stæði framboð á lóðum uppbyggingu á húsnæðismarkaði fyrir þrifum. Við höfum ekki enn séð neinn hrekja það.“ 

Fjármálakerfið dró ekki úr útlánum til byggingaverkefna

Sigurður segir í Morgunblaðinu að greining Jóns Magnúsar Hannessonar, hagfræðings hjá Seðlabanka Íslands, sýni það svart á hvítu að „fjármálakerfið dró ekki úr nýjum útlánum til byggingaverkefna og því þarf að leita annarra skýringa á samdrættinum. Böndin beinast að ráðhúsinu.“ Þá bendir hann einnig á að málið snúi vissulega að fleiri sveitarfélögum en bara Reykjavíkurborg. Hins vegar sé um að ræða stærsta sveitarfélag landsins og bendir hann á ruðningsáhrifin. „Auðvitað hefur það áhrif á fasteignamarkaðinn alls staðar á landinu að lítið sé byggt í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins.“

Morgunblaðið / mbl.is, 8. nóvember 2021.

Morgunbladid-08-11-2021