Fréttasafn



26. júl. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Fundur í lok ágúst með borgaryfirvöldum

Morgunblaðið segir fréttir af því að skrifstofa borgarstjórans í Reykjavík hafi sent blaðinu athugasemd vegna fréttar um gagnrýni Samtaka iðnaðarins á störf byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem segir að óskað hafi verið eftir fundi í maí og niðurstaðan sé að fulltrúar samtakanna verði boðið til fundar um málið í síðari hluta ágústmánaðar, eða um einum ársfjórðungi síðar. Í athugasemdinni segir að fyrir „löngu [sé] búið að senda fundarboð til Samtaka iðnaðarins vegna fundar sem fram fer nú í ágúst. Ástæða tafanna á fundinum sjálfum eru sumarleyfi, en í ljósi alvarlegra athugasemda í bréfi Samtaka iðnaðarins við fjölmarga embættismenn innan borgarinnar, um viðmót þeirra og þjónustulund, auk þess sem hraði á afgreiðslu mála var gagnrýndur, var talið farsælast að boða til fundarins að loknum sumarleyfum í því skyni að ná fullri mætingu á fundinn. Meirihluti fundarmanna hjá Samtökum iðnaðarins hefur hins vegar enn ekki svarað fundarboði umhverfis- og skipulagssviðs. Álag á embætti byggingarfulltrúa er afar mikið, enda stendur nú yfir mesta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur.“

Morgunblaðið, 26. júlí 2017, mbl.is.