Fréttasafn



28. okt. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Fundur um innbyggða fordóma í gervigreind

VERTOnet sem eru hagsmunasamtök kvenna í upplýsingatækni á Íslandi standa fyrir fundi um gervigreind næstkomandi miðvikudag 30. október kl. 16.45-19.00 í stofu M105 í Háskólanum í Reykjavík. Eru innbyggðir fordómar í gervigreind? er yfirskrift fundarins og segir í kynningu á fundinum að mikilvægt sé að hópurinn sem komi að þróun gervigreindar sé fjölbreyttur til þess að niðurstöður reiknirita og hugbúnaðar byggðar á gervigreind hafi ekki innbyggða hlutdrægni sem gæti hampað öðrum hópi umfram annan. Á fundinum verður farið yfir hver staðan er og hvað hægt er að gera til að tryggja að fulltrúar allra hópa komi að þróuninni. 

Fundarstjóri er Erna Sigurðardóttir, sérfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte. Á fundinum flytja erindi Saga Úlfarsdóttir, ráðgjafi Gagnaráðgjöf og Gervigreind, Advania, dr. Jacky Mallett, lektor við Háskólann í Reykjavík, og Hafdís Sæland, nemi í tölvunarfræði við HR. 

Á vef VERTOnet er hægt að nálgast frekari upplýsingar um fundinn og skrá sig.