Fréttasafn



10. feb. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Vetnis- og rafeldsneytissamtökin

Fundur VOR með orkumálastjóra

Orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, var gestur á fundi stjórnar Vetnis- og rafeldsneytissamtakanna, VOR, og aðildarfyrirtækja þeirra samtaka sem fór fram í Húsi atvinnulífsins í gær. Um var að ræða fyrsta fund stjórnar með aðildarfyrirtækjum VOR á árinu en stefnt er að því að halda nokkra slíka fundi á árinu.

Formaður VOR, Auður Nanna Baldvinsdóttir, opnaði fundinn og fór yfir starfsemi og hlutverk VOR og helstu áskoranir sem framundan eru í starfsemi aðildarfyrirtækja. Auður Nanna fór einnig yfir kosti vetnis og rafeldsneytis til að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda og þær breytingar sem framundan eru í íslensku orkukerfi. Hún ítrekaði mikilvæg þess að hér sé til staðar skýrt og skilvirkt regluverk til að koma verkefnum af stað. 

Því næst hélt orkumálastjóri erindi þar sem farið var m.a. yfir breyttar áherslur í starfsemi Orkustofnunar til að takast á við orkuskipti og sýn stofnunarinnar á þeim vettvangi. Fór orkumálastjóri yfir áherslur Orkusjóðs til stuðnings orkuskipta. Einnig ræddi hún um stöðu Orkustofnunar sem ráðgjafa stjórnvalda um orkumál og mikilvægi stofnunarinnar í upplýsingagjöf til almennings. Þessu tengt tók Halla Hrund saman þá þætti sem stofnunin telur mikilvægt að taka til skoðunar til að styðja við orkuskipti og orkutengd verkefni hér á landi. Í kjölfarið fór fram góð og gagnleg umræða um orkuskipti, starfsskilyrði fyrirtækja, fyrirsjáanleika í orkumálum og önnur mál sem brenna jafnt á fyrirtækjum í VOR sem og stjórnvöldum.

20230209_090735Auður Nanna Baldvinsdóttir, formaður VOR.

20230209_091720Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri.

20230209_093435