Fréttasafn18. nóv. 2016 Iðnaður og hugverk

Fyrirhugað að stofna Framleiðsluráð SI

Undanfarið hefur verið kallað eftir nánari samstarfi fyrirtækja í framleiðslugreinum innan Samtaka iðnaðarins. Því er fyrirhugað að stofna Framleiðsluráð SI sem verður vettvangur fyrir samstarf ólíkra framleiðslufyrirtækja innan samtakanna. Markmiðin með stofnun ráðsins eru að ná betur utan um framleiðslugreinar sem heild, mynda breitt bakland og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum hópsins. Fyrirtæki í framleiðslu á Íslandi standa frammi fyrir mörgum krefjandi áskorunum sem meðal annars felast í styrkingu krónunnar.

Til að móta stefnu Framleiðsluráðs SI er öllum fyrirtækjum á framleiðslu- og matvælasviði boðið til fundar til að móta verkefni sem ráðið mun beita sér fyrir á næstu árum. Stefnumótunarfundurinn er haldinn 28. nóvember kl. 12–17 á Hilton Reykjavík Nordica, Vox Club.

Framleiðslu- og matvælasvið SI telur um 230 fyrirtæki. Framleiðslufyrirtæki eiga stóran þátt í fjölbreyttu atvinnulífi hér á landi. Dæmi um framleiðslu sem aðildarfyrirtæki SI fást við eru matvæli, fóður, umbúðir, húsgögn, innréttingar, byggingavörur, tæki og vélar, prentverk og vinnsla úr endurvinnsluefnum og málmum.

Framleiðslufyrirtæki eru mikilvæg stærð í hagtölum á Íslandi en þau velta 685 milljörðum króna á ári, eru með um 14.500 starfsmenn í vinnu og flytja út iðnaðarvörur fyrir 331 millljarð króna árlega.

Við fengum stjórnendur nokkurra fyrirtækja sem tilheyra framleiðslu- og matvælasviði SI til að gefa innsýn í hvar sameiginlegir hagsmunir liggja:

Með því að leggja saman krafta okkar getum við aukið sýnileika framleiðslugreina og stuðlað að fjölbreyttu atvinnulífi í nánu samstarfi við aðrar atvinnugreinar.“  Gestur Pétursson, Elkem

Til að reka framleiðslufyrirtæki þarf starfsfólk með rétta þekkingu og færni. Menntamál eru því sameiginlegt hagsmunamál fyrirtækjanna.Þórður Theodórsson, Marel

Það skiptir ekki öllu máli hvaða vara fer í gegnum húsið, framleiðslufyrirtæki þurfa öll að vinna með birgðastjórnun, framleiðslustýringu,  gæðamál og vöruþróun. Við getum lært hvert af öðru og dreift þekkingunni.Gunnar Sverrisson, Odda

Framleiðsluráð er vettvangur til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum sem varða til dæmis löggjöf, opinber gjöld og þjónustu opinberra aðila.Bergþóra Þorkelsdóttir, Ísam

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Bryndísi Skúladóttur, forstöðumanni framleiðslu- og matvælasviðs SI, bryndis@si.is.