Fréttasafn30. mar. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Fyrirsjáanlegur skortur á íbúðum eftir 3-5 ár

Í Bítinu á Stöð 2 í morgun var rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, og Hermann Jónasson, forstjóra HMS, um stöðuna á byggingarmarkaðnum hér á landi um þessar mundir. Sigurður segir í viðtalinu að staðan sé þannig að sveiflurnar í byggingariðnaði séu miklu meiri heldur en í hagkerfinu sjálfu. „Þannig að þegar við erum í uppsveiflu þá verður meiri uppsveifla í byggingariðnaði. En á móti þegar það verður kólnun í hagkerfinu eins og núna þá verður miklu meiri samdráttur. Það er það sem við erum að sjá núna. Í íbúðatalningunni sem við vorum að kynna í síðustu viku, sem fór fram í febrúar áður en veiran fór að breiða úr sér yfir heimsbyggðina, þá kemur í ljós talsverður samdráttur í fjölda íbúða í byggingu. Við sjáum það að íbúðum fækkar um 11% og það hefur ekki orðið viðlíka samdráttur í talningunni síðan 2011. En áhyggjuefnið er að ef við horfum á fyrstu byggingarstigin þá er þar yfir 40% samdráttur á einu ári í íbúðum upp að fokheldu. Sem þýðir að þó við sjáum krana víða um bæinn þá eru það allt saman verkefni sem fóru af stað fyrir löngu síðan.“

Sigurður segir mjög fá ný verkefni vera að fara af stað. „Þetta gefur okkur vísbendingar um að eftir einhver ár, segjum bara 3-5 ár af því það tekur tíma að byggja, að þá gæti verið skortur á íbúðum og við sjáum það líka í spánni okkar. Við erum að taka hana niður fyrir þetta og næsta ár. Spáin fyrir þetta ár fer niður um 30% og spáin fyrir næsta ár fer niður um 40%.“

Á vef Vísis er hægt að horfa á viðtalið í heild sinni.

Visir-30-03-2020-3-Gunnlaugur Helgason, Heimir Karlsson, Sigurður Hannesson og Hermann Jónasson ræða um byggingamarkaðinn í Bítinu í morgun.

Visir-30-03-2020Sigurður Hannesson, framkvæmastjóri SI, og Hermann Jónasson, forstjóri HMS.