Fyrirtækin vinna hörðum höndum að því að draga úr losun
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í þættinum Rauða borðið á Samstöðinni um orku- og loftslagsmál undir yfirskriftinni Framtíðarsýn iðnaðarins. Það er Oddný Eir Ævarsdóttir sem ræðir við Sigurð sem segir meðal annars í viðtalinu: „Ef við horfum á loftlagsmálin, þá snýst það um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þá eftir atvikum að fara í mótvægisaðgerðir þar sem ekki er hægt að ganga lengra í samdrættinum. Ef við horfum á Ísland, per se, þá getum við sagt það með nokkurri einföldun að losun gróðurhúsalofttegunda kemur úr tveimur áttum. Það er annars vegar í gegnum iðnaðarferla, sem sumir voru þróaðir á 19. öldinni. Dæmi um það er framleiðsla á áli og öðrum málmum. Hins vegar er mikil losun á Íslandi vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, olíu, og það kemur til mikið vegna samganga, bílaflotinn og flugvélar.“
Einnig segir Sigurður í viðtalinu: „Þegar það snýr að iðnaðinum þá er það þessi losun sem kemur frá iðnaðarferlunum. Þetta er svolítið tæknilegt, en Evrópa hefur sammælst um ákveðin kerfi, þannig að það er eitt kerfi sem snýr að stjórnvöldum í hverju landi, þar eru til dæmis samgöngur. Síðan er annað kerfi sem tekur sérstaklega utan um stóriðnað og framleiðslu málma. Þar eru innbyggðir hvatar til að draga úr losun og þar hafa fyrirtækin verið að vinna hörðum höndum að því að draga úr losun.“
Á vef Samstöðvarinnar er hægt að horfa á viðtalið við Sigurð í heild sinni.
Samstöðin, 10. september 2024.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.