Fréttasafn



7. okt. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Fyrsta íslenska kvikmyndastefnan

Í nýrri kvikmyndastefnu sem gefin hefur verið út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu eru tilgreindar tíu aðgerðir til að ná markmiðum stefnunnar. Um er að ræða fyrstu heildstæðu stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði kvikmyndamála. Stefnan ber yfirskriftina Kvikmyndastefna til ársins 2030 – Listgrein á tímamótum og var unnin í nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvaldam undir forystu mennta- og menningarmálaráðherra. 

Á vef Stjórnarráðsins segir að kvikmyndagerð hafi fest sig í sessi sem listgrein og sem atvinnugrein hafi umfang hennar margfaldast á síðustu tveimur áratugum. Gerð kvikmyndastefnu sé liður í þeirri ætlan stjórnvalda að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með sérstakri áherslu á greinar sem byggja á hugviti, sköpun og sjálfbærum lausnum. Tilgreind eru fjögur markmið kvikmyndastefnunnar sem er að 1) skapa auðuga kvikmyndamenningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska tungu, 2) bjóða fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, 3) styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og 4) Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar.

Hér er hægt að nálgast kvikmyndastefnuna í PDF.

Á Youtube er hægt að horfa á myndband um kvikmyndastefnuna: 

Hér

Markar nýtt upphaf fyrir íslenska kvikmyndagerð

Í Fréttablaðinu er rætt við Lilja Ósk Snorradóttur, formann Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, sem segir kvikmyndastefnuna marka nýtt upphaf fyrir íslenska kvikmyndagerð. „Við fögnum þessum áfanga. Þetta er fyrsta heildstæða stefna stjórnvalda á sviði kvikmyndamála og mun hún styrkja bæði íslenska menningu og tungu á sama tíma og hún eflir atvinnulífið. Það má segja að þetta marki nýtt upphaf fyrir greinina.“ Hún segir markmiðið vel raunhæft ef aðgerðunum verður fylgt eftir. „Það liggur heilmikil vinna þarna að baki allt frá vorinu 2019. Við erum sannfærð um að þetta muni skila árangri.“

Lilja segir að hluti af aðgerðum sé að þróa hagvísa og upplýsingavef með það að leiðarljósi að auka skilning á hagrænu áhrifunum, því að kvikmyndagerð borgi sig og skili margfalt til baka.

Fréttablaðið, 7. október 2020.