Fréttasafn24. sep. 2015 Iðnaður og hugverk

Gæðastjórnun sparar gríðarlega peninga

„Það er ekki líklegt til árangurs að tala um ISO staðla við starfsmenn. Það á frekar að byggja upp verklag sem stuðlar að því að allir vinni í samræmi við gæðakerfi án þess að þeir geri sér grein fyrir því dags daglega“, sagði Áslaug D. Benónýsdóttir, Gámaþjónustunni á fundi um gæðastjórnun í framleiðslu.

Annar fundur Samtaka iðnaðarins um framleiðni fór fram í dag þar sem fjallað var um mikilvægi gæðastjórnunar í framleiðslu. Á fundinum fjallaði Áslaug um það sem hún kallar gæðaferðalag Gámaþjónustunnar. Fyrir Gámaþjónustuna skiptir rekjanleiki í skráningum öllu máli og þar hefur lykilinn verið notkun á réttri upplýsingatækni og tækninýjungum hverju sinni .

Áslaug sagði ávinninginn af því að leggja af stað í umrætt gæðaferðlag margþættan. „Gámaþjónustan hefur upplifað aukna starfsánægju meðal starfsmanna sem leiðir til betri þjónustu við viðskiptavininn. Einnig höfum við séð aukin tækifæri í markaðsmálum, aukin samskipti og bætt upplýsingaflæði milli starfsmanna sem og fjárhagslegan ávinning.“. 

Ferdinand Hansen verkefnastjóri gæðastjórnunar hjá SI fjallaði um það fjölbreytta efni sem aðgengilegt er félagsmönnum samtakanna og varðar umbótastarf við stjórnun og rekstur fyrirtækja.

Samtök iðnaðarins bjóða félagsmönnum sínum aðgang að grunni að gæðakerfi. Þangað geta fyrirtækin leitað þegar þau vantar dæmi um verklagsreglur, eyðublöð og annað sem viðkemur rekstri og stjórnun við að byggja upp eigið gæðakerfi. Öll ráðgjöf og aðstoð til félagsmanna er innifalin í félagsgjöldum að undanskildum aðgangi og vistun á gæðakerfum.

Ferdinand kynnti einnig hugmyndafræðina á bak við þrepavottanir SI sem eru viðurkenningar til fyrirtækja sem hafa náð tilteknum árangri í stjórnun og rekstri.

Jörgen Hansen verkefna- og gæðastjóri hjá Naust Marine sagði mikla fjölgun starfsmanna og aukin umsvif hafa kallað á skipulagðari vinnu í stjórnun og betri stýringu á starfseminni. „Þegar starfsmönnum fjölgar verða svið sérhæfðari og þá er mikilvægt að skerpa á starfssviðum og ábyrgð. Þannig er hægt að fylgjast með því að fyrirtækið sé að uppfylla eigin kröfur um framleiðni og hagkvæmni verksins. Gæðastjórnun hefur sparað fyrirtækinu gífurlegar upphæðir og það er í raun kjarni málsins.“

Naust Marine er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur nýtt sér þrepavottun SI. Jörgen sagði það hafa gefið góða raun en með henni væri búið að brjóta upp þetta stóra verkefni sem innleiðing gæðastjórnunar er.

Jörgen og Áslaug voru sammála um að til þess að innleiðing gæðastjórnunar gengi vel þyrfti starfsfólk fyrirtækjanna að vera með í ráðum og hafa skoðun og áhrif á það hvernig breytingin verður. Gæðastjórnun hætti í raun aldrei  heldur felst í því að allir í fyrirtækinu temji sér það hugarfar að gera alltaf betur.

Hér má nálgast hljóðglærur frá fundinum.