Gæta þarf hagsmuna Íslands til austurs og vesturs í tollastríði
Evrópa er langmikilvægasti markaðurinn fyrir iðnaðarvörur. Vægi Bandaríkjanna hefur aukist undanfarin ár og er sá markaður sérstaklega mikilvægur fyrir hugverkaiðnað. Útflutningur iðnaðar nam 750 milljörðum króna árið 2024 eða 39% alls útflutnings vöru og þjónustu. Vöruútflutningur iðnaðar nam 523 milljörðum króna eða 55% af heildarvöruútflutningi landsins. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI sem ber yfirskriftina Gæta þarf hagsmuna Íslands til austurs og vesturs í alþjóðlegu tollastríði. Með áframhaldandi vexti hugverkaiðnaðar má því búast við að útflutningur til Bandaríkjanna aukist. Í því samhengi má nefna að meira var flutt út til Bandaríkjanna af tækjum og vörum til lækninga en af þorski á síðasta ári.
Tollar leggjast á vörur en vöruútflutningur Íslands er helst bundinn við iðnað og sjávarútveg. Tvær af fjórum meginstoðum útflutnings eru innan iðnaðar, þ.e. orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður.
Ísland er lítið hagkerfi sem er mjög háð greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum. Landsmenn hafa ríka hagsmuni af utanríkisviðskiptum. Góð lífskjör hér á landi byggja á sterkum og fjölbreyttum útflutningi og að hér á landi séu framleidd verðmæti sem seld eru á erlendum mörkuðum. Alþjóðlegt tollastríð getur haft veruleg neikvæð áhrif hér á landi m.a. á íslenskan iðnað. Viðskiptahættir í heiminum eru að breytast vegna tollastríðs þar sem forseti Bandaríkjanna hefur tilkynnt um álagningu hárra tolla á innflutning á tilteknum vörum frá tilteknum löndum og þeim áformum verður svarað með álagningu tolla á tilteknar vörur frá Bandaríkjunum.
Í þessum aðstæðum er mikilvægt að íslensk stjórnvöld gæti viðskiptahagsmuna bæði til austurs og vesturs og tryggi áframhaldandi greiðan aðgang að mörkuðum. Bandaríkin hafa boðað eða lagt á tolla sem beinast gegn helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna, þar á meðal Kína, Evrópusambandinu, Mexíkó og Kanada. Tollunum er beint að ákveðnum vörutegundum á borð við ál og stál svo eitthvað sé nefnt. Beinast tollarnir einnig að vörum sem byggðar eru á áli og stáli. Viðskiptalönd Bandaríkjanna hafa sem fyrr segir svarað í sömu mynt eða a.m.k. viðrað hugmyndir um slík áform.
Mikill vöxtur hefur verið í útflutningi íslenskra iðnaðarvara til Bandaríkjanna á síðustu árum og eru því ríkir hagsmunir að áfram verði greiður aðgangur að þeim markaði. Óvíst er hvort og þá með hvaða hætti tollar verði lagðir á íslenskan útflutning, þ.m.t. afurðir íslensks iðnaðar. Versta hugsanlega sviðsmyndin fyrir Ísland væri að verða á milli í tollastríði milli Bandaríkjanna og ríkja Evrópu. Samtök iðnaðarins telja afar ólíklegt að sú sviðsmynd raungerist en mikilvægt er að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur, hér eftir sem hingað til, til að koma í veg fyrir slíka sviðsmynd með því að tala máli Íslands.
Útflutningur 2024
Heildarútflutningstekjur íslenska hagkerfisins voru 1.920 milljarðar króna á síðasta ári og var helmingur þess vöruútflutningur. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þar sem tollar leggjast á vörur. Vöruútflutningurinn er að mestu leyti bundinn við tvær greinar hagkerfisins, þ.e. iðnað og sjávarútveg.
Iðnaðurinn er stærsta útflutningsgreinin, en á síðasta ári aflaði hann 750 milljarða króna í útflutningstekjur, sem nemur 39% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Tvær af fjórum meginstoðum útflutnings eru innan iðnaðar, þ.e. orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður. Tollastríð gæti haft talsverð áhrif á báðar þessar stoðir.
Orkusækinn iðnaður er mjög mikilvægur fyrir útflutning en stór hluti hans er útflutningur á áli og kísiljárni. Útflutningur þessarar greinar nam 23% af heildarútflutningi hagkerfisins á síðasta ári eða sem nemur 442 milljörðum króna. Hugverkaiðnaður hefur verið í miklum vexti hér á landi á síðustu árum en útflutningstekjur greinarinnar námu 309 milljörðum króna, eða 16% af heildarútflutningstekjum hagkerfisins, á síðasta ári. Ef áætlanir fyrirtækja í greininni ganga eftir verður hún verðmætasta stoð útflutnings eftir fimm ár, þ.e. árið 2030.
Þegar kemur að áhrifum hugsanlegs tollastríðs ræðst umfang þeirra af samsetningu utanríkisviðskipta – skiptingu milli vöru- og þjónustuviðskipta, vöruflokka og landsvæða. Um 70% af útflutningi iðnaðarins eru vörur og er Evrópumarkaður langmikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar iðnaðarvörur, en þar á eftir kemur Bandaríkjamarkaður
Útflutningur iðnaðar 2024
Bandaríkin eru vaxandi markaður og mikilvægur markaður fyrir hugverkaiðnað
Útflutningur iðnaðarvara til Bandaríkjanna hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og skipar bandaríkjamarkaður sífellt stærri sess í útflutningi landsins. Útflutningur iðnaðarvara til Bandaríkjanna hefur tvöfaldast á tveimur árum og ríflega þrefaldast á fimm árum. Í heild voru fluttar út iðnaðarvörur héðan til Bandaríkjanna fyrir 62 milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 31 milljarð króna árið 2022 og 19 milljarða króna árið 2020. Á síðasta ári voru flutt til Bandaríkjanna aðallega lækningavörur og -tæki (39 milljarðar króna) og kísiljárn (5 milljarðar króna). Í fyrra var flutt meira út af lækningavörum og -tækjum til Bandaríkjanna en af þorski. Útflutningur af lækningavörum og -tækjum, sem falla undir hugverkaiðnað hefur verið í mestum vexti á því svæði síðustu misseri. Þá reiða mörg fyrirtæki sig á viðskipti á Bandaríkjamarkaði. Það eru því ríkir hagsmunir af því að halda greiðum aðgangi að þeim markaði fyrir íslenskar vörur.
Ofangreint sýnir að Ísland er háð greiðum aðgangi að mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Á tímum tollastríðs þarf því að gæta hagsmuna Íslands bæði til austurs og vesturs. Til að draga úr neikvæðum áhrifum tollastefnu Bandaríkjanna þurfa íslensk stjórnvöld að beita virkri utanríkisstefnu sem miðar að því að halda greiðum aðgangi að mörkuðum og lágmarka áhrif þessa á íslenskan efnahag.
Hér er hægt að nálgast greininguna.
Morgunblaðið / mbl.is, 27. mars 2025.
Vísir, 27. mars 2025.