Fréttasafn



28. apr. 2021 Almennar fréttir

Gagnrýna áform ESB sem snúa að sjálfbærri stjórnun fyrirtækja

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, er meðhöfundur greinar í Financial Times ásamt framkvæmdastjórum systursamtaka Samtaka iðnaðarins í Svíþjóð, Danmörku, Finlandi, Noregi og Eistlandi. Í greininni sem ber yfirskriftina „Brussels' sustainable corporate governance plan is flawed“ hvetja þeir til þess að Evrópusambandið setji ekki í lög það sem nefnt er sjálfbær stjórnun fyrirtækja (e. sustainable corporate governance), þ.e. þau áform að ábyrgð stjórnenda snúi ekki einungis að hluthöfum heldur þurfi stjórnendur einkafyrirtækja að horfa til allra hagsmunaaðila þegar ákvarðanir eru teknar. Framkvæmdastjórarnir eru í grein sinni að benda á að þau fyrirtæki sem virða að vettugi aðra hagsmuni verði undir í samkeppninni og þurfi því ekki sérstaka lagasetningu. Þeir segja að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi hafið metnaðarfull áform um sjálfbærni með European Green Deal og þeir styðji það en að þeir geti ekki stutt það sem kallað er „sustainable corporate governance“. Þeir benda á að hugmyndirnar byggi á vafasamri rannsókn sem níu prófessorar í Harvard hafi hafnað. Ákvæðið sé gallað og hunsi að sjálfbærni sé nú þegar mikilvægur hluti í samkeppnisrekstri fyrirtækja til að laða til sín viðskiptavini, fjárfesta og starfsmenn. Hætta sé á að þetta muni skaða getu fyrirtækja til að eiga árangursrík viðskipti, veikja stjórnarhætti fyrirtækja og skyldur stjórnenda verði óskýrari.

Í niðurlagi greinarinnar hvetja þeir til þess að framkvæmdastjórn ESB haldi ekki áfram með tillöguna.

Undir greinina skrifa Jan-Olof Jacke, Lars Sandahl Sorensen, Jyri Hakamies, Ole Erik Almlid, Arto Aas og  Sigurður Hannesson Chief Executives, Nordic Confederations of Industries of Sweden, Denmark, Finland, Norway, Estonia and Iceland. 

Hér er hægt að nálgast greinina í heild sinni.

Financial-Times-22-04-2021