Fréttasafn



27. jan. 2023 Almennar fréttir Menntun

Gefa barnabækur til leik- og grunnskóla

Íslandsbanki, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Toyota á Íslandi standa að bókagjöf í samstarfi við útgáfufélagið Stórir draumar en um er að ræða sex barnabækur úr bókaflokknum um Litla fólkið og stóru draumana sem fara til allra leik- og grunnskóla landsins. Þar með er fylgt eftir bókagjöf sem barst með sama hætti á síðastliðnu ári. Með gjöfinni fylgja kveðjur til allra barna og ungmenna á Íslandi með hvatningu til þess að auka lestur á íslensku. Í tilkynningu segir að í síkviku samfélagi sé mikilvægt að standa vörð um íslenska tungu enda sé hún ein af grunnstoðum menningararfs þjóðarinnar.

Bækurnar hafa allar að geyma sögur sem flytja boðskap af einstaklingum sem látið hafa drauma sína rætast og haft um leið jákvæð áhrif á fólk víða um heim. Persónurnar sem þarna er fjallað um koma úr ólíkum áttum, lista- og menningar-, vísinda- og menntasamfélags. Lestur bókanna og umræða um þær eru til þess fallnar að vekja börn til umhugsunar um jafnréttismál, náttúruvernd, mikilvægi vísindastarfs, listsköpun og mannúðarmál og geta þar með nýst sem mikilvægt innlegg í kennslu. Markmiðið með útgáfunni er er að skapa aðgengi að frásögnum af áhrifamiklu fólki þar sem einstaklingar á öllum aldri geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Allar-baekur
Askja-002-