Fréttasafn20. sep. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Gefa þarf í íbúðauppbyggingu ef ekki á illa að fara

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í grein sinni um húsnæðismarkaðinn í sérblaði Viðskiptablaðsins um Orku og iðnað að ljóst sé að gefa þurfi verulega í ef ekki eigi illa að fara, með áframhaldandi framboðsskorti á íbúðum sé hætta á að verðbólgan verði þrálát næstu árin með tilheyrandi háum vöxtum sem bíti verulega í hjá heimilum og fyrirtækjum. Hann segir að því séu stjórnvöld hvött til að bæta starfsumhverfi fyrirtækja í greininni og auka framboð á lóðum svo unnt verði að byggja nægilega margar íbúðir til að mæta þörfum landsmanna. Sigurður segir iðnaðinn reiðubúinn í þá uppbyggingu sem þurfi.

Spjótin beinast að sveitarfélögum sem útvega ekki nægar byggingarhæfar lóðir

Sigurður segir í greininni að húsnæðismarkaðurinn sé eitt mikilvægasta púslið í stóru efnahagsmyndinni um þessar mundir. Framþróun verðbólgu og vaxta ásamt komandi kjarasamningum hvíli á því að tryggt verði að íbúðauppbygging verði í takti við þarfir landsmanna. Svo hafi ekki verið, of fáar íbúðir hafi verið byggðar. Verkefnið fram undan sé að tryggja næga uppbyggingu þannig að jafnvægi myndist milli framboðs og eftirspurnar. Hann segir að þetta stóra verkefni verði ekki leyst nema ríki, sveitarfélög og fyrirtæki taki höndum saman. Nú beinist öll spjót að sveitarfélögunum sem hafa ekki útvegað nægar byggingarhæfar lóðir.

Hvítbók innviðaráðherra í kjölfar rammasamnings ríkis og sveitarfélagi

Þá segir Sigurður í greininni að nýlega hafi innviðaráðherra kynnt hvítbók um húsnæðismál þar sem sett séu fram drög að stefnu í húsnæðismálum til fimmtán ára ásamt fimm ára aðgerðaráætlun. Í hvítbókinni sé m.a. lögð áhersla á þörfina fyrir stöðugleika á þeim markaði og undir það sé vert að taka. Óstöðugt umhverfi íbúðauppbyggingar hafi komið niður á almenningi og fyrirtækjum sem starfi í greininni. Hann segir að stjórnendur fyrirtækja í greininni hafi bent á að það sé dýrt og áhættusamt að reka fyrirtæki í starfsumhverfi sem þenjist sundur og saman eins og harmonikka. Óstöðugleiki og sveiflur sem einkennt hafi íbúðauppbygginguna hafa því komið niður á framleiðni í greininni, aukið kostnað við uppbyggingu og dregið úr framboði. Til að tryggja stöðugleika á íbúðamarkaði þurfi starfsumhverfi fyrirtækja í byggingariðnaði að vera gott og aðgengi að lóðum til uppbyggingar nægt en svo hafi ekki verið undanfarið. Þá segir hann að hvítbókin komi í kjölfar rammasamnings sem gerður var um mitt ár 2022 milli innviðaráðuneytis, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um sameiginlega framtíðarsýn um að auka framboð íbúða næsta áratuginn. Samkvæmt samningnum eigi að byggja 35 þúsund íbúðir á tíu ára tímabili, þar af fjögur þúsund íbúðir á ári fyrstu ár samningsins. Á grundvelli rammasamningsins hafi svo átt að gera samninga við einstök sveitarfélög og hafi fyrsti samningurinn verið gerður við Reykjavíkurborg. Sigurður segir þetta vera góða leið til að ríki og sveitarfélög gangi í takt varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.

Viðskiptablaðið/Orka og iðnaður, 20. september 2023.