Fréttasafn22. apr. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Menntun

Gekk vel að taka á móti 1.800 nemendum á Verk og vit

„Það gekk ótrúlega vel hjá okkur á Verk og vit og mjög flottir 10. bekkingar sem komu og heimsóttu okkur,“ segir Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, í helgarútgáfu Morgunblaðsins en hún sá um skipulagningu á móttöku nemendanna fyrir hönd SI. „Það komu yfir 1.800 nemendur í dag og við vildum sýna þeim hvað það er ótrúlega flott að fara í iðn- og tækninám og síðan verkfræði. Það eru alls konar námsleiðir í boði til að finna skemmtileg störf.“ 

Í fréttinni kemur fram að mikill fjöldi kennara og starfsfólks hafi komið að sýningunni og hjálpað til við að taka á móti þessum stóra hópi, nemendur Tækniskólans, FSU á Selfossi, MK, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Team Spark-háskólaliðið, sem er nú að smíða rafmagnskappakstursbíl. Síðan voru fjölmörg fyrirtæki á sýningunni, eins og ÍAV, Ístak, verkfræðistofur og arkitektar, sem tóku sérstaklega á móti krökkunum. „Við hvöttum krakkana til að ræða við fyrirtækin og spyrja hvernig nám þyrfti til að fá störf hjá þeim og láta hjartað ráða för í valinu. Ég sá ekki betur en það væri slegist um ungviðið. Framtíðin er björt ef marka má þessa flottu krakka, en við þurfum að tryggja að þau geti farið í iðnnám. Eins og staðan er í dag er 600-1.000 manns vísað frá iðn- og tækninámi, þannig að það vantar meira pláss fyrir nemendur.“

Morgunblaðið, 20. apríl 2024. 

Morgunbladid-20-04-2024_2