Fréttasafn9. jún. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Menntun

Gengur illa að fá rafvirkja til starfa þegar verkefnum fjölgar

Rætt er við Pétur H. Halldórsson, formann Félags löggiltra rafverktaka, á RÚV þar sem kemur fram að illa gangi að fá rafvirkja til starfa. Pétur segir fréttamanninum Arnari Björnssyni að getuleysi stjórnmálamanna sé um að kenna og það bitni á stéttinni að þeir sem vilji læra fagið komist ekki í nám. „Það er búið að ganga mjög illa að fá rafvirkja með reynslu. Þeir eru bara ekki til, eru ekki á lausu". Hann segir engar umsóknir berast þegar auglýst sé eftir rafvirkjum. „Við höfum lent í vandræðum þegar verkefnum fjölgar. Það er búið að vera mikill vandi hjá skólunum að taka við þeim sem vilja læra. Húsnæðisskortur er alveg svakalegur. Fjármagn er greinilega skorið mikið niður og fylgir ekki þessum yfirlýsingum sem ráðamenn okkar gefa."

Tækniskólinn löngu sprunginn

Í frétt RÚV kemur fram að Pétur sitji í fagráði Tækniskólans og segi að skólinn sé löngu sprunginn og henti ekki til verknáms. „Hann er barn síns tíma. Það var búið að ákveða að byggja nýjan skóla að okkur skilst en lóðin sem þeir töldu sig vera komna með var ekki fyrir hendi. Þannig að við erum komin á byrjunarreit". Pétur segir að þar sem langt sé þar til nýr skóli verði tekin í notkun þurfi að leysa vandann með leiguhúsnæði.

Getuleysi stjórnmálamanna um að kenna

Þegar fréttamaður spyr Pétur hvort það bitni á stéttinni að nemendur komist ekki í nám segir hann já gríðarlega. „Við finnum það á okkar skinni því við fáum ekki til okkar fullnuma rafvirkja." Pétur segir í frétt RÚV að um 200 ljúki sveinspróf á ári, margir skili sér ekki á vinnumarkaðinn því sumir haldi námi áfram. Kröfurnar hafi verið hertar og nú þurfi einkunnina B í stærðfræði til að komast í nám. „Þannig að iðnaðarmennirnir sem eru ekki jafn sleipir í stærðfræði og myndu vera áfram í greininni komast ekki að. Ég er búinn að bíða í næstum eitt og hálft ár eftir viðtali við menntamálaráðherra sem þá var. Síðan var skipt um ráðherra og komið nýtt ráðuneyti. Ég endurnýjaði viðtalsbeiðni við hann og þeirri beiðni hefur ekki verið svarað. Ég held að málefnið sé bara of viðkvæmt. Þeir geta ekki tekið á þessu. Þeir treysta sér ekki í þetta. Þetta er algjört getuleysi stjórnmálamanna sem þessu ástandi er um að kenna."

RÚV, 8. júní 2022.

Pétur H. Halldórsson, formaður Félags löggiltra rafverktaka.