Fréttasafn



26. feb. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Gervigreind skapar ný tækifæri fyrir arkitekta

Samtök arkitektastofa, SAMARK, stóðu fyrir fundi um gervigreind og nýtt viðmót fyrir umsókn um byggingarleyfi í Húsi atvinnulífsins í dag. Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var fundarstjóri. Hún fór í upphafi yfir niðurstöður könnunar um notkun gervigreindar sem lögð var fyrir aðildarfyrirtæki SAMARK.

Hjörtur Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Mynstru, fjallaði um hvernig gervigreind getur skapað ný tækifæri fyrir arkitekta. Með dæmum um sjálfvirknilausnir sem einfalda rútínuvinnu, nýtingu spjallmenna eins og ChatGPT í skapandi og tæknilegum verkefnum, og notkun mynd- og líkanagerðartóla sýndi hann hvernig arkitektar geta nýtt tækni til þess að ná meiri afköstum og gæðum.

Hugrún Ýr Sigurðardóttir, teymisstjóri á sviði mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS, fór yfir þróun á mannvirkjaskrá á vegum HMS. Í dag eru ferlin við að sækja um byggingarleyfi mörg, líkt og byggingarfulltrúaembættin sjálf. Mikil tækifæri eru til úrbóta og einföldunar. Hún fór yfir að stafræn byggingarleyfi eru stórt skref í átt að bættri skráningu, skilvirkari afgreiðslu við leyfisveitingu og birtingu upplýsinga nær rauntíma um mannvirkjagerð á Íslandi. Þróað hefur verið nýtt viðmót fyrir umsókn um byggingarleyfi sem er ætlað að stuðla að nútímavæðingu afgreiðslu byggingarleyfa og utanumhaldi gagna um mannvirki á líftíma þess. Farið var yfir hver framtíðin verður í afgreiðslu byggingarleyfa og sýnt inn í nýtt notendaviðmót. 

IMG_2844Hjörtur Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Mynstru.

IMG_2847

IMG_2861Hugrún Ýr Sigurðardóttir, teymisstjóri á sviði mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS.

IMG_2854

IMG_2855