Fréttasafn23. jan. 2019 Almennar fréttir Nýsköpun

Gervigreindarhátíð í HR

Gervigreindarhátíð HR verður haldinn næstkomandi föstudag 25. janúar í Háskólanum í Reykjavík kl. 14-19 í stofu V102 þar sem viðfangsefnið er gervigreind og máltækni. Erindi verða haldin á ensku og eru öllum opin.

Sérfræðingar frá Google, Amazon, Microsoft, Almannarómi og Háskólanum í Reykjavík munu ræða aðkomu gervigreindar að máltækni. Máltækni er rannsóknar- og þróunarsvið sem hefur það að markmiði að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Í tilkynningu frá HR segir að máltækni hafi verið mikið í umræðunni undanfarið, m.a. vegna stöðu íslenskunnar í tæknivæddum heimi og nýrrar verkáætlunar ríkisstjórnarinnar um máltækni fyrir íslensku. Þróunin í máltækni hafi verið mjög hröð á undanförnum árum og byggi útfærsla á sýndarþjónum á borð við Siri hjá Apple, Alexu hjá Amazon og Google Home á þeim framförum. Þessi þróun sé háð málföngum sem þarf til þess að útfæra tæknina. Það sé því stór áskorun að yfirfæra þessa þróun yfir á öll tungumál.

Erlendu fyrirlesararnir á hátíðinni eru:

Richard Sproat, Google AI, sérfræðingur í máltækni og vitvélum

Will Lewis, Microsoft Translate, sérfræðingur í vélþýðingum og reiknimálfræði

Linne Ha, Research Google AI, sérfræðingur í samskipti manna og tölva og málvinnslu

Hér má finna dagskrá gervigreindarhátíðarinnar.