Fréttasafn



14. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Gervigreindarkapphlaupið eitt mesta tæknikapphlaup allra tíma

Gervigreindarkapphlaupið er eitt mesta tæknikapphlaup allra tíma. Það er nátengt öryggis- og varnarhagsmunum og má segja að um sé að ræða nútíma vopnakapphlaup. Það mun hafa mikil áhrif þegar fram í sækir hvar þjóðir staðsetja sig á þessu sviði. Þetta sagði Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í inngangi sínum á Iðnþingi 2025. Sigríður stýrði umræðum um gervigreindarkapphlaupið með eftirtöldum þátttakendur: Róbert Helgason, frumkvöðull og stofnandi Fordæmi, Bergþóra Halldórsdóttir, stjórnandi hjá Borealis Data Center, og Ingvar Hjálmarsson, formaður Hugverkaráðs SI.

Keppast við að byggja upp tækni-, gagna- og fjarskiptainnviði

Sigríður sagði jafnframt í inngangi sínum að í gervigreindarkapphlaupinu felist að ríki heims keppist við að byggja upp tækni-, gagna- og fjarskiptainnviði og sæki markvisst fjárfestingu frá stóru tæknifyrirtækjunum og lykilaðilum sem leiði þróun og vinnslu gervigreindar. 

Takmarkanir Bandaríkjanna til að tryggja sigur í gervigreindarkapphlaupinu

Áður en umræðurnar hófust sýndi Sigríður heimskort þar sem kom fram skipting landa í tengslum við útflutningstakmarkanir Bandaríkjanna á háþróaðri gervigreindartækni. Hún sagði að grænu löndin fái ótakmarkaðan aðgang að tækninni, til dæmis öflugum Nvidia örflögum. Bláu löndin eru þau sem þurfa að halda sér innan kvóta, sem Ísland mun að óbreyttu klára í sumar. Appelsínugulu löndin eru þau sem er vantreyst og búa við enn meiri takmarkanir og rauðu löndin eru algjörlega útilokuð frá lykiltækni gervigreindar. Hún sagði að tilgangurinn með þessum takmörkunum Bandaríkjanna væri að tryggja sigur í gervigreindarkapphlaupinu en þetta þýði að lönd skiptist nú í flokka, þau sem talin eru skipta máli fyrir Bandaríkin í tengslum við gervigreind, þau sem skipta ekki máli og svo óvinaþjóðir eða þjóðir sem er takmarkað treyst.

Gervigreind_Map-2Heimskort sem sýnir útflutningstakmarkanir Bandaríkjanna á háþróaðri gervigreindartækni.

Si_idnthing_2025-47

Si_idnthing_2025-46

Si_idnthing_2025-52_1741949162282Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, Róbert Helgason, frumkvöðull og stofnandi Fordæmi, Bergþóra Halldórsdóttir, stjórnandi hjá Borealis Data Center, og Ingvar Hjálmarsson, formaður Hugverkaráðs SI.

Hér er hægt að nálgast upptöku af umræðunum:

https://vimeo.com/1063507477

Hér er hægt að nálgast samantekt um gervigreindarkapphlaupið:

https://vimeo.com/1065819172