Fréttasafn



11. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Gervigreindarkapphlaupið er nútíma vopnakapphlaup

Heimurinn er á áhugaverðum krossgötum. Alþjóðavæðing síðustu áratuga er á undanhaldi og stærstu þjóðir og efnahagsveldi heims farin að horfa meira á vernd eigin hagsmuna. Heimsmyndin er breytt. Þetta segja Ingvar Hjálmarsson, formaður Hugverkaráðs SI, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í grein á Vísi sem ber yfirskriftina Þetta er ekki tæknimál - þetta er lífsspursmál.

Evrópa í stærra hlutverki en áður

Í greininni segja þau að margt bendi til þess að Bandaríkin líti síður á sig sem „leiðtoga hins frjálsa heims“ en áður með rofi á áherslum á frjáls viðskipti, byggingu tollamúra og viðskiptalegum refsiaðgerðum til að draga úr viðskiptahalla. Evrópa standi því mögulega frammi fyrir því að geta síður reitt sig á sameiginlegar áherslur Evrópu og Bandaríkja og þurfi sjálf að taka stærra hlutverk en áður, sérstaklega þegar komi að öryggis- og varnarmálum og samkeppnishæfni.

Ein stærsta iðnbylting allra tíma

Ingvar og Sigríður segja í greininni að auk geópólítískra áskorana vofi yfir breytingaský, en nú standi yfir ein stærsta iðnbylting allra tíma. Gervigreindarkapphlaup sé hafið og það geti í víðum skilningi ráðið miklu um samkeppnishæfniog stöðu þjóða tilframtíðar. Um sé að ræða nútíma vopnakapphlaup. Ljóst sé að stórveldin, hvort sem það séu Bandaríkin, Evrópusambandið eða Kína geri öll tilkall til forystu í þróun og hagnýtingu gervigreindar til að treysta sína framtíð.

Íslensk stjórnvöld móti metnaðarfulla stefnu sem allra fyrst

Þá segja þau að ríki heims séu betur og betur að gera sér grein fyrir að þau tækifæri og þær ógnanir sem felist í gervigreind séu af stærðargráðu sem krefjist samstundis athygli stjórnvalda, atvinnulífs og samfélagsins alls. Þetta gildi sérstaklega um lítið opið hagkerfi eins og Ísland. Hraðinn í framþróuninni sé slíkur að sífellt erfiðara verði fyrir fyrirtæki að bregðast við - að ekki sé talað um stjórnvöld, sem vinni oft í hægari takti en umhverfið sem þau styðji við. Ingvar og Sigríður segja að breytt heimsmynd og ljóshraði þróunar á gervigreind krefjist athygli og skýrrar stefnumörkunar hér á landi. Íslensk stjórnvöld þurfi að taka sér leiðtogahlutverk og móta metnaðarfulla stefnu og aðgerðir sem allra fyrst.

Þá telja þau upp í greininni hvað leggja þarf áherslu á í slíkri stefnu og hvað þurfi að varast.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 7. mars 2025.