Fréttasafn



10. okt. 2016 Almennar fréttir

Geysir fékk viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, afhentu verðlaunin fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun árið 2016 við athöfn Hönnunarverðlauna Íslands sem fram fór í Safnahúsinu við Hverfisgötu í síðustu viku. Fyrirtækið Geysir fékk viðurkenninguna en þetta er í annað sinn sem þessi viðurkenning er veitt. Í fyrra hlaut Össur samskonar viðurkenningu. 
Í orðum dómnefndar kemur fram að Geysir hafi fengið einhverja færustu hönnuði landsins til starfa á öllum vígstöðvum hvort sem við á um vörumerki, ímyndarsköpun, hönnun verslana, grafíska hönnun eða fatahönnun. Þannig hefur fyrirtækið skilgreint mikilvægi hönnunar í öllu þróunarferli og skapað ímynd og upplifun tengda fyrirtækinu með framúrskarandi hætti. Með því að setja þátt hönnunar í öndvegi hefur Geysir á skömmum tíma náð einstökum árangri og er orðið eitt þekktasta vörumerki landsins, kemur fram í umsögn dómnefndar.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.