Fréttasafn4. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Gjaldskrárhækkun Sorpu hátt í 300% í sumum tilvikum

„Það hefur verið lögð á það mikil áhersla í núverandi ástandi að ríkisvaldið og sveitarfélögin haldi aftur af sér í gjaldskrárhækkunum til að leggja ekki of miklar byrðar á fyrirtækin og heimilin í landinu. Þarna fer Sorpa algjörlega gegn því,“ segir Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, í Morgunblaðinu og vísar þar til boðaðra verðhækkana á þjónustu Sorpu sem taka eiga gildi 1. janúar næstkomandi.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að séu núverandi verðskrá og sú boðaða bornar saman komi í ljós að í sumum tilvikum nemi hækkun á móttökugjaldi endurvinnslustöðva fyrirtækisins hátt í 300%. Það eigi t.d. við um steinefni frá byggingariðnaðinum og glerumbúðir og glerílát. Hafi verðskráin hingað til miðað við að 1,86 kr. væru greiddar fyrir hvert innlagt kíló en frá áramótum hækkar gjaldið í 6,82 kr. „Þetta virkar ekki mikið en hækkunin getur leitt til kostnaðarauka upp á allt að 30 milljónir króna hjá stærri byggingarverktökum á einu ári. Það gefur augaleið að þetta verður til þess að hækka byggingarkostnað, ekki síst á þéttingarreitum þar sem rýma þarf til fyrir nýju húsnæði á kostnað gamals.“ 

Í fréttinni kemur fram að Lárus segist ekki trúa því fyrr en á því verði tekið að þessar hækkanir verði að veruleika og að þarna virðist sem fyrirtækið sé að sækja tekjur til atvinnugreina sem það telji aflögufærar. „Það hafa engar málefnalegar skýringar komið fram í tengslum við þessar hækkanir, t.d. að verið sé að breyta aðferðum við meðhöndlun úrgangsins,“ segir Lárus. 

Morgunblaðið / mbl.is, 4. desember 2020.

Morgunbladid-04-12-2020