Fréttasafn15. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Gláma-Kím og Landslag með vinningstillögu

Fjöreggið, tillaga  Landslags og Gláma-Kím, sem eru meðal aðildarfyrirtækja SI, vann samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey við Stykkishólm. Í tilkynningu segir að Fjöregginu sé lýst sem óhefðbundnum útsýnisstað sem er útsýnisskúlptúr, útsýnipallur, upplifunar- og áningarstaður allt í senn. Fjöreggið er hugsað sem kennileiti fyrir Stykkishólm sem verður sýnilegt frá bænum og því forvitnilegt aðdráttarafl fyrir gesti og ganga.

Í greinargerð um verkið kemur fram að fyrst og fremst sé Fjöregg hugsað sem kennileiti fyrir Stykkishólm og sem glettinn, gamansamur og óvæntur áningarstaður til að njóta Súgandiseyjar og útsýnisins yfir Breiðafjörð og eyjarnar. Í hönnuninni er leitast eftir ákveðnu jafnvægi við umhverfið þar sem markmiðið er að hrófla við sem minnstu og bæta við sem fæstu. Þannig er notað efni sem fyrir er í eynni, bæði huglægt og efnislegt. Unnið er með formgerð svæðisins, liti og tákn og vísanir í gamlar sagnir og trú. Vinningstillagan var unnin af Glámu-Kím og Landslagi í samstarfi við Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson.

Á vef Youtube er hægt að sjá kynningarmynd: 

https://www.youtube.com/watch?v=mbQiPPAXb-o